392. deildarráðsfundur raunvísindadeildar

aftur Yfirlitssíða fram

392. deildarráðsfundur raunvísindadeildar var haldinn föstudaginn 16. maí 2008, kl 12:30 í fundarherbergi VR-II. Mættir voru: Lárus Thorlacius, Rögnvaldur G. Möller, Hafliði P. Gíslason, Ágúst Kvaran, Ólafur S. Andrésson, Ólafur Ingólfsson, Anna Dóra Sæþórsdóttir og Kristberg Kristbergsson fyrir Ingu Þórsdóttur. Fulltrúi nemenda; Rakel Sæmundsdóttir (Raunveru). Fundarritari var Jón Guðmar Jónsson.

Mál á dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar.

Samþykkt með smábreytingum.

2. Samkomulag um starfslok Ingvars H. Árnasonar prófessors við efnafræðiskor.

Lagt fram:

-Drög, dags. 15. maí 2008, að samkomulagi um starfslok Ingvars H. Árnasonar.

-Bréf frá formanni efnafræðiskorar til deildarforseta varðandi samkomulagið.

Það skal tekið fram að samkomulagið er í samræmi við ósk Ingvars um starfslok með samþykki efnafræðiskorar fyrir sitt leyti.

Deildarráð samþykkti einróma fyrir sitt leyti; „Samkomulag um starfslok Ingvars“.

3. Samstarfsnefnd um vísindasögu við Háskóla Íslands.

-Lögð fram tillaga og greinargerð frá Þorsteini Vilhjálmssyni prófessor í vísindasögu um samstarfsnefnd um vísindasögu við Háskóla Íslands/ÞV-160508.

Gert yrði ráð fyrir einum fulltrúa frá heimspeki og öðrum frá sagnfræði, auk raunvísindadeildar.

Deildarráð raunvísindadeildar samþykkir einróma að beita sér fyrir því að endurvekja nefndina og að það verði tveir fulltrúar frá raunvísindadeild og að Einar H. Guðmundsson prófessor verði annar þeirra.

Deildarforseta falið að skipa hinn fulltrúann í samráði við deildarráðsmenn.

4. Áætlun um rannsóknarnám í sameindalífvísindum.

Í framhaldi af síðasta deildarráðsfundi hefur málið verið tekið fyrir í efnafræðiskor og líffræðiskor.

Á fundi líffræðiskorar var samþykkt samstarf við læknadeild um rannsóknarnám í sameindalífvísindum.

Á fundi efnafræðiskorar komu fram efasemdir um málið.

[Deildarráð samþykkir samhljóða að eiga aðild að samstarfi um rannsóknarnám í sameindavísindum á fyrirliggjandi forsendum.]

Tekið skal fram að þessi samvinna er háð samþykki einstakra kennara sem sinna þessu rannsóknarnámi.

5. Kennarastarf í sameindalífvísindum.

Lögð fram:

-Drög (og greinargerð), dags. 31.10.2007, að auglýsingu um kennarastarf í sameindalífvísindum, ásamt nýrri greinargerð, dags. 13.05.2008.

-Samantekt, dags. 24.04.2008, um kennslu og rannsóknir á nokkrum sviðum líffræðinnar við líffræðiskor og Líffræðistofnun.

Formaður líffræðiskorar gerði grein fyrir málinu.

Deildarráð samþykkir fyrir sitt leyti einróma að auglýst verði starf kennara í sameindalíffræði.

Jafnframt verði fjármálanefnd deildar falið að undirbúa erindið áður en það verður sent til fjármálanefndar háskólaráðs.

6. Kennarastarf í hagnýttri stærðfræði.

Formaður stærðfræðiskorar lagði fram drög að auglýsingu um starf dósents í hagnýttri stærðfræði.

Farið var yfir drögin og gerðar á þeim breytingar.

Þetta er eitt af þeim nýju störfum sem heimiluð hafa verið af hálfu háskólaráðs og rektors og fylgja því 4,5 Mkr. á ári til frambúðar.

Gert er ráð fyrir því að ráðið verði í starfið frá miðju ári 2009 eða fyrr.

Samþykkt einróma að auglýsa starfið í haust.

7. Ný störf við jarðvísindadeild.

Formaður jarðvísindaskorar gerði grein fyrir málinu og lagði fram geinargerðir um hvert hinna nýju starfa. Einnig bréf frá formanni stjórnar Jarðvísindastofnunar, dags. 8. maí 2008, þar sem meðal annars kemur fram að stofnunin er reiðubúin til að greiða hálf laun tveggja kennara við raunvísindadeild (jarðvísindadeild í nýju skipulagi) í stað tveggja prófessora, þar sem annar er kominn í 49% starf og hinn stefnir í að fara í sama starfshlutfall en báðir hafa verið í 100% starfi. Um er að ræða þrjú ný kennarastörf .

a) Kennarastarf á sviði jarðeðlisfræði (orkumála). Eitt af hinum nýju störfum, sem 4,5 Mkr. fylgja til frambúðar.

b) Kennarastarf á sviði bergefna- og steindafræði.

c) Kennarastarf á sviði jarðefnafræði jarðhita.

Formaður jarðvísindaskorar skýrði og gerði grein fyrir málinu sem fyrr segir og óskaði eftir því að fjármálanefnd deildar færi yfir fjárhagslegar forsendur málsins, svo að hægt yrði að fá að auglýsa og ráða í störfin.

8. Kjörskrá vegna kjörs deildarforseta og varadeildarforseta í líf- & umhverfisvísindadeild, jarðvísindadeild og raunvísindadeild.

-Lögð fram drög að kjörskrá fyrir kosningu í hverri deild.

Sérfræðingi var bætt inn á kjörskrána á fundinum.

Samþykkt að fólk hefði viku til að kæra sig inn á eða út af kjörskrá.

Send verður út fyrirspurn/skoðanakönnun til allra fastra kennara um það hverjar óskir þeirra væru um það í hvaða deild þeir vildu vera og greiða atkvæði í.

Forstöðumönnum stofnana deildar falið að fara yfir kjörskrána með tilliti til þess hvort einhverja sérfræðinga vanti inn á hana, sem þeir teldu að ættu að vera inn á henni.

Með framangreindum fyrirvörum og breytingum bar deildarforseti kjörskrána upp til samþykktar.

Kjörskráin var samþykkt einróma.

9. Auglýsingar í tengslum við innritun nýnema.

Deildarforseti skýrði frá tilboðum sem hann hefði fengið í auglýsingar í skjámiðlum fyrir nýnema og samráði sem hann hefði átt við framkvæmdastjóra markaðs- og samskiptasviðs, Jón Örn Guðbjartsson.

Deildarforseti óskaði eftir því að skorarformenn kæmu með tillögur um fyrirkomulag auglýsinganna.

10. Skipulag og stjórnsýsla í náttúruvísindum við Háskóla Íslands.

Deildarforseti lagði til að eftirtaldir einstaklingar frá deild og stofnunum hennar yrðu í samráðshópi um skipulag og stjórnun í náttúruvísindum við Háskóla Íslands.

Í hópnum yrðu: Frá raunvísindadeild: Lárus Thorlacius, Anna Dóra Sæþórsdóttir, Ólafur S. Andrésson og Snorri Þór Sigurðsson. Frá stofnunum: Hafliði P. Gíslason, Sigurður S. Snorrason og Stefán Arnórsson.

Samþykkt einróma.

11. Kennsla í grunngreinum við Háskóla Íslands.

Frestað til næsta fundar.

12. Starfsmannasamtöl.

Deildarforseti skýrði frá því að í skorarskiptum deildum myndu skorarformenn eiga starfsmannasamtöl við sína skorarmenn.

Rætt var um forsendur starfsmannasamtala og hvatti deildarforseti deildarráðsmenn til þess að kynna sér forsendur og eyðublöð fyrir starfsmannasamtöl.

13. Engin önnur mál.

Fleira ekki tekið fyrir á fundi.

Fundi slitið kl 15:15

Jón Guðmar Jónsson

fundarritari.