389. deildarráðsfundur raunvísindadeildar

aftur Yfirlitssíða fram

389. deildarráðsfundur raunvísindadeildar var haldinn föstudaginn 4. apríl 2008, kl 12:30-15:00, í fundarherbergi VR-257 í VR-II.

Mættir voru: Lárus Thorlacius, Gunnar Stefánsson (í fjarveru formanns og varaformanns stærðfræðiskorar), Hafliði P. Gíslason, Ágúst Kvaran, Ólafur S. Andrésson, Jón Ólafsson fyrir Ólaf Ingólfsson, Anna Dóra Sæþórsdóttir og Inga Þórsdóttir. Fulltrúar nemenda voru þau Rakel Sæmundsdóttir (Raunveru) og Hlynur Grétarsson (Stigli). Fundarritari var Jón Guðmar Jónsson.

Mál á dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar.

Samþykkt án athugasemda.

2. Mál til kynningar.

2.1 Frumvarp til laga um háskóla.

Deildarforseti skýrði frá því að frumvarp til laga um háskóla hefði verið lagt fram nú þessa dagana til fyrstu umræðu á Alþingi.

2.2 Ný störf af viðbótarfé vegna samnings við Menntamálaráðuneytið.

Deildarforseti skýrði frá því að hann hefði fengið bréf frá rektor um að raunvísindadeild fengi heimild til að auglýsa tvö störf, fjármögnuð af viðbótarfé Háskólans. Í þriðja starfið yrði ráðið í samvinnu við verkfræðideild og læknadeild.

Umræður urðu um hin nýju störf.

Formaður eðlisfræðiskorar, Hafliði P. Gíslason, lagði fram eftirfarandi tillögu:

„Deildarráð raunvísindadeildar óskar eftir rökstuðningi frá rektor fyrir vali einstakra starfa á árinu 2008, sem koma í hlut hins nýja fræðasviðs, verkfræði og náttúruvísinda, skv. ákvörðun hennar“.

Tillagan var borin undir atkvæði og var samþykkt með 3 atkvæðum gegn 2 og 2 sátu hjá.

2.3 Fundur um kennaramenntun í raungreinum og stærðfræði.

Deildarforseti skýrði frá fundi sem hann og Gunnar Stefánsson hefðu verið á með fulltrúum Kennaraháskóla Íslands (KHÍ) og einstaklingum innan Háskólans, um eflingu kennaramenntunar í raungreinum og stærðfræði.

Gert er ráð fyrir að skipað verði fagráð um málið í samvinnu við væntanlegt menntavísindasvið.

3. Undanþágubeiðni nemanda í jarðvísindaskor með þrífall í Almennri efnafræði I.

Jarðvísindaskor hefur samþykkt fyrir sitt leyti að heimila nemanda með þrífall í Almennri efnafræði I að skrá sig í námskeiðið í fjórða sinn.

Samþykkt einróma að heimila nemandanum að taka námskeiðið í fjórða sinn.

Jafnframt skuli talað við nemandann og brýnt fyrir honum að undirbúa sig sem best í námskeiðinu fyrir fjórðu próftöku.

4. Rannsóknarmisseri.

Stærðfræðiskor:

Jón Kr. Arason prófessor-Haustmisseri 2008.

Samþykkt einróma.

Jafnframt samþykkt að fjárveitingar til skora á árinu 2008 verði endurreiknaðar í samræmi við þau tvö rannsóknarmisseri (þetta og annað til) sem samþykkt hafa verið frá því að fjárhagsáætlun deildar var samþykkt. Jafnframt að endurreiknað verði og tekið tillit með sama hætti til þeirra rannsóknarmissera sem kunna að verða samþykkt síðar á árinu.

5. Breyting á reglum um inntökuskilyrði vegna frumgreinadeildar Keilis.

Deildarforseti kynnti það að breyta þyrfti reglum um inntökuskilyrði í þá veru að frumgreinadeild Keilis teljist sambærileg stúdentsprófi hvað innritum í deildina varðar.

Í samræmi við tillögu og umsögn frá kennslusviði (Gísla Fannberg) var lögð fram svohljóðandi tillaga um breytingu á 11. gr. reglna Háskóla Íslands:

„Lokapróf frá frumgreinadeild Keilis nægir til inngöngu í raunvísindadeild til jafns við stúdentspróf enda hafi viðkomandi stundað nám sem ætlað er fyrir þá sem hyggja á frekara nám í verkfræði og raunvísindum“.

Samþykkt einróma.

6. Breyting á fjármögnun starfs við líffræðiskor.

Eftirfarandi tillaga var samþykkt samhljóða á skorarfundi líffræðiskorar 27.mars 2008:

„Tillaga um greiðslur vegna starfs Snæbjörns Pálssonar dósents árið 2008.

Vegna erindis Snæbjörns Pálssonar til líffræðiskorar og stjórnar raunvísindadeildar.

Greiðslur Snæbjörns vegna kennsluskyldu hans sem dósent eru á mun lægri taxta en greiða yrði fyrir yfirvinnu kennara. Mismunurinn nemur u.þ.b. 1 miljón króna. Auk þessa hafa styrkir Snæbjörns aflað mótframlaga skv. nýju deililíkani H.Í. sem nema vel á fjórðu miljón króna. Stundakennarar utan Háskólans afla ekki slíkra mótframlaga. Snæbjörn er virkur í stjórnunarstörfum og formaður vísindanefndar raunvísindadeildar.

Líffræðiskor samþykkir því að greiða á árinu 2008 kr. 1.800.000 vegna rannsóknarhluta dósentsstarfs Snæbjörns Pálssonar.

Þessi ráðstöfun er háð því að þau námskeið sem Snæbjörn kennir fylgi samþykktri fjárhagsáætlun. Það sem á vantar greiðist af rannsóknarreikningi Snæbjörns“.

Deildarráð samþykkti einróma tillögu skorar um breytingu á fjármögnun rannsóknarhluta dósentsstarfs Snæbjörns.

7. Aðstoðarkennarastyrkir úr Aðstoðarmannasjóði Háskóla Íslands.

Tillögur um styrki til aðstoðarkennara úr Aðstoðarmannasjóði þurfa að hafa borist til sjóðsins eigi síðar en 15. apríl næstkomandi.

Deildarforseti ítrekaði að skorarformenn, sem það hafa ekki gert, skili til hans lista yfir þá sem eigi að sækja um styrki fyrir.

8. Undur alheimsins-Fyrirlestraröð á alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar á árinu 2009.

Ósk hefur komið frá Einari H. Guðmundssyni prófessor í stjarneðlisfræði um að deildin styrki fyrirlestraröð-„Undur alheimsins á alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar árið 2009.

Árið 2009 er einnig afmælisár Darwins.

Í samræmi við framangreint leggur deildarforseti til að fyrirlestraraðirnar „Undur alheimsins“ og „Undur lífsins“ verði haldnar á árinu 2009.

Samþykkt samhljóða.

9. Umræða um kjörskrá vegna kjörs deildaforseta og varadeildaforseta í nýju skipulagi.

Deildarforseti kynnti að hann myndi á næsta deildarfundi leggja fram tillögu um að sérfræðingar á stofnunum deildar, sem stunda sjálfstæð fræða- og vísindastörf, fái atkvæðisrétt á deildarfundi og hafi kosningarétt og kjörgengi til embætta deildarinnar.

Deildarráð lýsti sig fylgjandi tillögunni.

Umræður urðu einnig um stöðu skipulagsmála á fræðasviði verkfræði og raunvísinda.

10. Önnur mál.

10.1 Umsóknir og umsóknareyðublöð fyrir rannsóknarnámið.

Vakin var athygli á að nýtt eyðublað vegna framhaldsnámsumsókna kallar á breytta afgreiðslu umsókna. Nýja eyðublaðið býður upp á takmarkaðri upplýsingum varðandi námskipan og upplýsingar um leiðbeinanda, frá hendi umsækjenda. Lagt var til að afgreiðsla skora taki fyrst og fremst mið af því hvaða umsækjendur starfsmenn viðkomandi skora geti annast. Viðkomandi starfsmenn / leiðbeinendur gera síðan námsáætlanir í samráði við umsækjendur sem lagðar verði fyrir framhaldsnámsnefnd.

Þá óskaði formaður líffræðiskorar Ólafur S. Andréssonar óskaði eftir því að eftirfarandi tilmæli yrðu bókuð:

„Mælst er til þess að deild, rannsóknarnámsnefnd og stjórnsýsla H.Í. flýti sem mest afgreiðslu á umsóknum erlendra rannsóknarnema, einkum doktorsnema. Landvistarleyfi erlendra nema er háð vottorði um að þeir hafi verið samþykktir í formlegt nám og það getur tekið langan tíma að fá afgreiðslu á umsóknum um landvistarleyfi, í það minnsta þrjá mánuði ef nemandinn er utan EES svæðis. Jafnframt mega slíkir nemendur ekki vera komnir til landsins þegar þeir sækja um landvistarleyfi og þurfa að framvísa margvíslegum plöggum, t.d. um tryggingar og sakavottorð."

Fleira ekki tekið fyrir á fundi.

Fundi slitið kl 15:00

Jón Guðmar Jónsson

fundarritari.