388. deildarráðsfundur raunvísindadeildar

aftur Yfirlitssíða fram

388. deildarráðsfundur raunvísindadeildar var haldinn þriðjudaginn 18. mars 2008, kl 12:30-14:20, í fundarherbergi VR-257 í VR-II.

Mættir voru: Lárus Thorlacius, Guðrún Marteinsdóttir, Rögnvaldur G. Möller, Hafliði P. Gíslason, Ágúst Kvaran, Ólafur S. Andrésson, Magnús Tumi Guðmundsson fyrir Ólaf Ingólfsson, Anna Dóra Sæþórsdóttur og Inga Þórsdóttir. Fulltrúar nemenda voru þau Rakel Sæmundsdóttir (Raunveru) og Hlynur Grétarsson (Stigli). Fundarritari var Jón Guðmar Jónsson.

Mál á dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar.

Samþykkt án athugasemda.

2. Tækjakaupasjóður háskólaráðs-Umsóknir.

Skorir skili inn tillögum til deildar ekki seinna en föstudaginn 28. mars næstkomandi. Ef viðbótarfé fæst í sjóðinn þarf deildin að vera vakandi fyrir því að sækja um það.

Formaður líffræðiskorar skýrði frá því að að tækjavæða þyrfti kennslustofu á 3. hæð í Öskju. Leitað hefur verið eftir fé til þess frá 2005 án árangurs. Umsókn um hluta af þessum tækjum liggur nú fyrir meðal umsókna í tækjakaupasjóð. Formaður líffræðiskorar óskaði eftir að sótt yrði um framlag til þessarar tækjavæðingar úr sérstöku viðbótarframlagi Háskólans til tækjavæðingar.

Fram komu vangaveltur um það hvert vægi umsókna frá einstökum kennurum væri með tilliti til þess hvort þeir væru ráðnir tímabundinni eða ótímabundinni ráðningu. Umsóknir kennara eru jafngildar hvort sem þeir eru ráðnir ótímabundið eða tímabundið, svo framarlega að þeir hafi hlotið hæfisdóm.

3. Kynning á kjöri deildarforseta í nýju skipulagi .

Dreift:

-Plaggi frá kennslustjóra Þórði Kristinssyni um framkvæmd kosningar einstakra deildarforseta og varadeildarforseta í nýju skipulagi.

-17. gr. og 20. gr. reglna Háskóla Íslands um skipan deildarfundar og kjör deildarforseta.

-Tillögu að ályktun . Lögð fram af Ólafi S. Andréssyni formanni líffræðiskorar um að ekki sé tímabært að kjósa einstaka deildarforseta og varadeildarforseta á fræðasviði verkfræði- og raunvísinda fyrr en ljóst sé hvernig skipan stjórnsýslu og fjármála á fræðasviðinu verður háttað.

Tillagan og greinargerð með henni var svohljóðandi:

„Tillaga til ályktunar – fundur deildarráðs raunvísindadeildar 18. mars 2008

Lögð fram af Ólafi S. Andréssyni.

Deildarráð raunvísindadeildar telur ekki tímabært að kjósa forseta nýrra deilda á fræðasviði verkfræði og náttúruvísinda fyrr en ljóst verður hvernig skipan stjórnsýslu og fjármála á fræðasviðinu verður háttað.

Greinargerð:

Það skiptir sköpum hvernig fjárstreymi vegna rannsókna og kennslu verður háttað innan sviðsins og hvernig stjórnsýslu verður háttað á hinum ýmsu stigum. Í núverandi stöðu má segja að fólki yrði boðið að bjóða sig fram í nokkurri blindni og óvissu um hlutverk og stöðu deildarforseta. Eðlilegt er því að ákveða fyrirkomulag stjórnsýslu og fjárstreymis sem fyrst og kjósa deildarforseta strax eftir það. Ályktun þessi nær ekki til hinnar nýju matvæla- og næringarfræðideildar enda verður hún á öðru fræðasviði“.

Samþykkt samhljóða.

Deildarforseti mun senda rektor samþykkt fundarins, svo og kennslustjóra en kennslusviði hefur verið falin framkvæmd kosningar deildarforseta og varadeildarforseta.

4. Breyting úr meistaranámi (án brautskráningar) í doktorsnám.

Vakin var athygli á því að þegar samþykkt er að nemandi breyti úr meistaranámi í doktorsnám án brautskráningar sem meistari, þá verður deildin af verulegum tekjum (fjárveitingum) í formi færri þreyttra eininga og missir einnig fast framlag með hverjum brautskráðum meistara. Þá verður kennarinn/leiðbeinandinn einnig fyrir verulegri tekjuskerðingu þar sem laun fyrir leiðbeiningu getur mest miðast við 120e í stað 60e + 90e.

5. Önnur mál.

5.1 Nafn fræðasviðsins á ensku.

Ítrekuð einróma fyrri samþykkt deildarráðs um að fræðasviðið skuli á ensku heita:

School of Science and Engineering.

Ítrekuð samþykkt verður send til rektors og háskólaráðs.

5.2 Ráðning aðjúnkts við land- og ferðamálafræðiskor.

Samþykkt einróma að Þorbjörg Kjartansdóttir verði ráðinn aðjúnkt (skv. „gamla laginu“) við land- og ferðamálafræðiskor frá 1. mars 2008 að telja til 2ja ára.

5.3 Undanþágubeiðni frá stærðfræðiskor varðandi innritunarheimildir.

Tillaga frá formanni stærðfræðiskorar um að nemanda með 21e í stærðfræði og 9e í raungreinum, sem er að bæta við sig 6e í raungreinum, verði heimilað að innritast í stærðfræðiskor að því loknu og þegar hann hefur lokið 3ja ára námsbraut til stúdentsprófs sem hann er á við Verslunarskólann.

Nemandinn er einnig með 16e í hagfræði og myndi undanþágan til innritunar miðast við ósk nemandans, sem er að fá að stunda nám í stærðfræði með fjármál eða hagfræði sem aukagrein.

Skorarformaður hefur borið málið undir kennara stærðfræðiskorar í tölvupósti og meiri hluti þeirra er samþykkur því að veita einstaklingnum undanþágu til innritunar í stærðfræðiskor til að stunda nám í stærðfræði með fjármál eða hagfræði sem aukagrein.

Deildarráð samþykkti samhljóða að heimila nemandanum að innritast.

5.4 Rannsóknarmisseri.

Efnafræðiskor:

Guðmundur G. Haraldsson prófessor-Haustmisseri 2008.

Samþykkt einróma.

5.5 Umsögn til Alþingis um: „Frumvarp til breytingar á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna og lögum um stjórn fiskveiða.“

Samþykkt að óska eftir því við Bryndísi Brandsdóttur formanns stjórnar Raunvísindastofnunar að hún gefi umsögn um frumvarpið.

Fleira ekki tekið fyrir á fundi.

Fundi slitið kl 14:20

Jón Guðmar Jónsson

fundarritari.