382. deildarráðsfundur raunvísindadeildar

aftur Yfirlitssíða fram

382. deildarráðsfundur raunvísindadeildar var haldinn föstudaginn 7. desember 2007, í VR-II, fundarherbergi VR-257 og hófst kl 12.30.

Mættir voru: Lárus Thorlacius, Guðrún Marteinsdóttir, Eggert Briem fyrir Rögnvald G. Möller, Hafliði P. Gíslason, Ingvar Helgi Árnason fyrir Ágúst Kvaran, Ólafur S. Andrésson, Áslaug Geirsdóttir, Magnfríður Júlíusdóttir og Inga Þórsdóttir. Fulltrúar nemenda voru Rakel Sæmundsdóttir (Raunveru) og Hlynur Grétarsson (Stigli) sem sat fyrri hluta fundar. Fundarritari var Jón Guðmar Jónsson.

Mál á dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar.

Samþykkt með leiðréttingum.

2. Rannsóknarmisseri.

Matvæla- og næringarfræðiskor: Sigurjón Arason dósent-Vor 2008.

Samþykkt einróma.

3. Stokkakerfi-Tillögur.

Lagðar fram þrjár tillögur að breyttu stokkakerfi til umræðu og afgreiðslu. Tillögurnar hafði Björn Gunnlaugsson unnið, miðað við þrenns konar forsendur, og jafnframt gert drög að stundatöflum vormisseris fyrir einstakar skorir.

Tillaga 1:

Stokkakerfi með stokkum 6 og 7 eftir hádegi. Miðað er við kerfi 2 + 3, það er að fyrst séu

kenndir 2 fyrirlestrar og síðan 3 fyrirlestrar/dæmatímar/umræðu/verklegir tímar.

Tillaga 2:

Stokkakerfi með stokkum 6 og 7 eftir hádegi. Miðað er við kerfi 3 + 2, það er að fyrst séu kenndir 3 fyrirlestrar og síðan 2 dæmatímar/umræðu/verklegir tímar/fyrirlestur.

Tillaga 3:

Sama og tillaga 2 (3+2) án fastra stokka eftir hádegi.

Í öllum tillögunum er gert ráð fyrir því að kennsla í verklegu geti verið eftir hádegi og þá yrði sú verklega kennsla ekki kennd í stokkum.

Allar tillögurnar gera ráð fyrir því að stokkar 1 til 5 séu kenndir fyrir hádegi.

Umræðu urðu um tillögurnar.

Deildarforseti lagði til að tillaga 3 (og 2) yrði samþykkt. Þar með yrði það eftir hentugleika hvort kennsla eftir hádegi yrði fest í stokkum 6 og 7 eða án fastra stokka.

Þessi tillaga er í samræmi við það fyrirkomulag sem verkfræðideild hyggst taka upp.

Tillagan kemur ekki til með að raska kennslufyrirkomulagi/stundaskrá þjónustukennslu fyrir aðrar deildir. Í þeim tilvikum sem frávik eru frá tillögunni hvað varðar kennslu fyrir aðrar deildir, þá gildir kennslufyrirkomulag/stundaskrá þeirrar deildar sem þiggur þjónustukennsluna.

Tillaga 3 (2) var samþykkt einróma og tekur gildi á vormisseri 2008.

4. Þjónustukennsla utan og innan deildar.

Deildarforseti lagði fram tillögur að verklagsreglum vegna þjónustukennslu innan og utan deildar. Tillögurnar voru ræddar og einnig hvernig kennslukannanir tengdust verklagsreglunum.

Deildarforseti bað skorarformenn að ræða tillögurnar í skorum. Tillögurnar verða lagðar fram á næsta deildarráðsfundi.

5. Kennsluáætlun ársins 2008.

Deildarforseti gerði grein fyrir fjárhagsstöðu deildar á yfirstandandi ári og næsta árs í ljósi þess hvort nýtt deililíkan lítur dagsins ljós á næsta ári eða ekki.

Staða ársins 2007:

Fjármál deildar stefna í 30 Mkr halla í árslok. Til að bæta þá stöðu má gera ráð fyrir 13 Mkr viðbótarfjárveitingu vegna launaskriðs og 7 Mkr leiðréttingu á rannsóknarlíkani. Halli ársins yrði því um 10 Mkr.

Áætluð staða ársins 2008:

Fjárhagsáætlun sú sem skilað var í október gerir ráð fyrir 48,5 Mkr halla. Fjárveiting ársins 2007 hækkar um 5% í stað 4% sem áður hafði verið gert ráð fyrir. Þetta gerir 7 Mkr viðbótarfjárveitingu. Þá má gera ráð fyrir að það komi ígildi 2ja „a-kassa“ í stað 2ja „c-kassa“ Þetta gerir aðrar 7 Mkr (2 x 3,5 Mkr). Halli ársins 2008 yrði þá 34,5 Mkr (48,5 – 7 – 7 = 34,5).

6. Framkvæmd sjúkra- og upptökuprófa.

Hér á eftir koma dagsetningar sem þarf að fara eftir vegna sjúkra- og upptökuprófa raunvísindadeildar í janúar:

7. Önnur mál.

7.1 Gestaprófessor við stærðfræðiskor.

Stærðfræðiskor hefur samþykkt fyrir sitt leyti og leggur til við deildarráð að dr. Þorkell Helgason orkumálastjóri og fyrrverandi prófessor í stærðfræði við Háskóla Íslands verði gestaprófessor við stærðfræðiskor. Enginn kostnaður verður þessu fylgjandi hvorki fyrir deild né skor.

Samþykkt einróma.

Fundi slitið kl 15:00

Jón Guðmar Jónsson fundarritari.