378. deildarráðsfundur ra unvísindadeildar

aftur Yfirlitssíða fram

378. deildarráðsfundur raunvísindadeildar var haldinn föstudaginn 12. október 2007, í VR-II, fundarherbergi VR-257 og hófst kl 12.30.

Mættir voru: Lárus Thorlacius, Guðrún Marteinsdóttir, Rögnvaldur G. Möller, Hafliði P. Gíslason, Ágúst Kvaran, Guðni Á Alfreðsson fyrir Ólaf S. Andrésson, Áslaug Geirsdóttir og Magnfríður Júlíusdóttir. Fulltrúar nemenda voru Rakel Sæmundsdóttir (Raunveru) og Hlynur Grétarsson (Stigli). Fundarritari var Jón Guðmar Jónsson.

Mál á dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar.

Samþykkt án athugasemda

2. Ráðning í 100% starf kennara (lektors eða dósents) í kennilegri eðlisfræði.

Formaður eðlisfræðiskorar, Hafliði P. Gíslasons, gerði grein fyrir málinu. Umsækjendur um starfið voru 34. Fimm umsækjendum var boðið að koma til landsins í viðtal og til að flytja fyrirlestur.

Á fundi sínum 8. október s.l. samþykkti eðlisfræðiskor samhljóða eftirfarandi ályktun: „Tillaga að ráðningu í starf dósents í kennilegri eðlisfræði: Eðlisfræðiskor telur Dr. Ivan Shelykh mjög vel hæfan til að gegna starfi dósents í kennilegri eðlisfræði við skorina og leggur því eindregið til að honum veri boðið starfið.

Eðlisfræðiskor leggur til við deildarráð raunvísindadeildar að dr. Ivan Shelykh verði boðið starf dósents í kennilegri eðlisfræði við raunvísindadeild“.

„Rökstuðningur skorar fyrir ráðstöfun starfs dósents í kennilegri eðlisfræði við raunvísindadeild:

Ivan Shelykh lauk doktorsprófi frá Tækniháskólanum í St. Pétursborg árið 2001, þar sem hann gegnir starfi dósents nú. Doktorsritgerð hans fjallaði um samfasa fyrirbæri í skammtavírum úr hálfleiðurum. Frá árinu 2002 hefur Shelykh stundað rannsóknastörf við Blaise Pascal háskólann í Frakklandi, Southampton háskólann í Bretlandi og alþjóðlega rannsóknastofnun í eðlisfræði þéttefnis í Brasilíu. Viðfangsefni hans eru margvísleg innan eðlisfræði þéttiefnis, einkum á sviði fjöleindakerfa í skertri vídd, ljósfræði skammtahola, eðlisfræði spunakerfa og Bose-Einsteinþéttingar skauteinda. Þessum áherslum hyggst Ivan Shelykh halda í starfi við eðlisfræðiskor. Hann hefur kennt mörg námskeið í grunn- og framhaldsnámi og leiðbeint doktorsnemum.

Samkvæmt Web of Science hefur Ivan Shelykh birt 41 grein og hefur verið vitnað í þær með nær 140 tilvitnunum. Eðlisfræðiskor telur að Ivan Shelykh uppfylli best umsækjenda óskir skorar um kennslu nemenda í grunn- og framhaldsnámi í almennri og kennilegri eðlisfræði, sem og öflugar og vaxandi rannsóknir á sérsviði sínu, kennilegri eðlisfræði þéttefnis. Rannsóknir hans falla afar vel að rannsóknum skorarinnar og auka jafnframt fjölbreytni þeirra. Rannsóknasamvinna hans við fjölmarga hópa vísindamanna, meðal annars tilraunahópa er eftirsóknarverð fyrir skorina. Virkni Ivans Shelykh í birtingum í alþjóðlegum vísindaritum í fremstu röð er eftirtektarverð. Eðlisfræðiskor telur Dr. Ivan Shelykh mjög vel hæfan til að gegna starfi dósents í kennilegri eðlisfræði við skorina og leggur því eindregið til að honum verði boðið starfið“.

Lagt er til að ráðið verði í starfið til fjögurra ára frá og með 1. apríl 2008.

Deildarráð samþykkti einróma tillögu eðlisfræðiskorar um að óska eftir því við rektor að dr. Ivan Shelykh verði boðið starf dósents í kennilegri eðlisfræði.

3. Ráðning í tvö 100% störf kennara í eðlisfræði, annað í tilraunaeðlisfræði og hitt í tilraunastjarneðlisfræði.

Formaður eðlisfræðiskorar, Hafliði P. Gíslasons, gerði grein fyrir málinu. Usækjendur um starfið voru 19. Nokkrum umsækjendum var boðið að koma til landsins í viðtal og flytja fyrirlestur.

Á fundi sínum 8. október s.l. samþykkti eðlisfræðiskor samhljóða eftirfarandi ályktun: „Tillaga að ráðningu í tvö störf kennara í eðlisfræði, annað í tilraunaeðlisfræði og hitt í tilraunastjarneðlisfræði: Skorin samþykkir fyrir sitt leyti að raunvísindadeild gangi til samninga við eðlisfræðistofu og háloftadeild um eftirfarandi ráðstöfun auglýsts starfs lektors/dósents í tilraunaeðlisfræði:

a. Dr. Einar Örn Sveinbjörnsson verði ráðinn í starf lektors/dósents í tilraunaeðlisfræði. Eðlisfræðistofa greiðir eðlisfræðiskor rannsóknahluta launa hans samkvæmt sérstökum skriflegum samningi milli Eðlis-, efna- og stærðfræðistofnunar Háskólans (EH) og Háskóla Íslands. Einar fær rannsóknaaðstöðu við eðlisfræðistofu.

b. Dr. Páll Jakobsson verði ráðinn starf lektors/dósents í tilraunastjarneðlisfræði. Háloftadeild eðlisfræðistofu greiðir eðlisfræðiskor rannsóknahluta launa hans samkvæmt sérstökum skriflegum samningi milli EH og Háskóla Íslands. Páll fær rannsóknaaðstöðu við háloftadeild.

Eðlisfræðiskor leggur til við deildarráð raunvísindadeildar að dr. Einari Erni Sveinbjörnssyni verði boðið starf dósents í tilraunaeðlisfræði og dr. Páli Jakobssyni starf dósents í tilraunastjarneðlisfræði við raunvísindadeild“.

„Rökstuðningur fyrir ráðstöfun starfs dósents í tilraunaeðlisfræði við raunvísindadeild: Einar Örn Sveinbjörnsson lauk doktorsprófi frá Chalmers tækniháskólanum í Gautaborg árið 1994. með ritgerð um rafeiginleika veilusameinda gulls í kísli. Einar var nýdoktor við Max-Planck rannsóknastofnunina í þéttefnisfræðum í Stuttgart 1995 - 1996. Hann hefur starfað við Chalmers tækniháskólann síðan og varð prófessor árið 2004. Rannsóknir Einars eru á sviði hálfleiðandi efna og virkra rása úr þeim. Undanfarin fjögur ár hefur hann rannsakað SiC hálfleiðara í samstarfi við Philips Semiconductors. Hann hefur birt 43 greinar sem skráðar eru í Web of Science með nær 400 tilvitnunum Þá hefur hann kennt í grunn- og framhaldsnámi í eðlisfræði og rafmagnsverkfræði í 15 ár bæði í sérhæfðum námskeiðum fyrir 5-10 framhaldsnema og fjölmennum grunnnámskeiðum. Einnig hefur hann gegnt ýmsum skyldustörfum í örtækniskor Chalmers tækniháskólans, meðal annars verið skorarformaður. Hann hefur leiðbeint fjórum doktorsnemum. Eðlisfræðiskor telur að Einar Örn Sveinbjörnsson uppfylli best umsækjenda óskir skorar um kennslu nemenda í grunn- og framhaldsnámi í almennri og verklegri eðlisfræði, sem og öflugar rannsóknir á sérsviði sínu, tilraunaeðlisfræði þéttefnis. Hann er margverðlaunaður af Chalmers fyrir ágæta kennslu, en kennsla í verklegri eðlisfræði er um þriðjungur kennslu í skorinni og að miklu leyti þjónustukennsla fyrir verkfræðideild. Hann hefur bæði stundað grunnrannsóknir á eiginleikum vetnis í hálfleiðurum og kannað nýtingu hálfleiðara með víða orkugeil í rásaríhluti orkuflutningskerfa. Viðfangsefni hans við skorina munu endurspegla nýjar og mikilvægar alþjóðlegar áherslur, orkusparnað í háspennukerfum og notkun kísilflaga í líf- og læknisfræðirannsóknum. Þau falla vel að áherslum skorar og fyrirhugaðri starfsemi í Vísindagörðum.

Eðlisfræðiskor telur dr. Einar Örn Sveinbjörnsson mjög vel hæfan til að gegna starfi dósents í tilraunaeðlisfræði við skorina og leggur eindregið til að honum verði boðið starfið“. „

Rökstuðningur fyrir ráðstöfun starfs dósents í tilraunastjarneðlisfræði við raunvísindadeild: Páll Jakobsson lauk doktorsprófi árið 2005 frá Kaupmannahafnarháskóla með ritgerðinni "Gamma-ray bursts and their hosts: A multiwavelength exploration". Síðan starfaði Páll um skeið sem nýdoktor við Niels Bohr stofnunina. Frá árinu 2006 hefur hann gegnt starfi nýdoktors við Háskólann í Hertfordshire á Englandi. Í byrjun árs 2007 hlaut hann Marie Curie Fellowship Evrópusambandsins til tveggja ára vegna framúrskarandi rannsókna. Rannsókir Páls eru einkum á sviði heimsfræði með sérstakri áherslu á mælingar, úrvinnslu mæligagna og tengingu þeirra við kennileg líkön. Viðfangsefnin eru einkum gammablossar og hýsilvetrarbrautir þeirra, en einnig sprengistjörnur, þyngdarlinsur, hulduefni og hulduorka, þróun vetrarbrauta og stórgerð alheimsins. Páll hefur tekið þátt í og efnt til viðamikilla alþjóðlegra samstarfsverkefna. Hann hefur mikla reynslu af athugunum með ýmsum helstu stjörnusjónaukum heims. Í mörgum tilvikum hefur Páll verið verkefnisstjóri viðkomandi verkefna. Samkvæmt Web of Science hefur Páll ásamt samstarfsmönnum birt 44 greinar með nær 1300 tilvitnunum í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum, þar af þrjár í Nature og ein í Science. Undanfarin fimm ár hefur rannsóknarvirknin stöðugt vaxið. Eðlisfræðiskor telur að Páll Jakobsson uppfylli best umsækjenda óskir skorar um kennslu nemenda í grunn- og framhaldsnámi í almennri eðlisfræði og stjarneðlisfræði, sem og um öflugar rannsóknir á sérsviði sínu, tilraunastjarneðlisfræði. Páll hyggst halda áfram athugunum á gammablossum og hýslum þeirra ásamt notkun þeirra í heimsfræði. Auk þess mun hann fylgja eftir fyrri rannsóknum sínum á þyngdarlinsum. Þessar áherslur falla vel að rannsóknum skorarinnar í stjarnvísindum og fela jafnframt í sér mikilsverðar nýjungar. Sérþekking Páls í mælingum og gagnaúrvinnslu mun efla og styrkja rannsóknasviðið og gjörbreyta allri aðstöðu til iðkunar stjarnvísinda við skólann. Eðlisfræðiskor telur dr. Pál Jakobsson mjög vel hæfan til að gegna starfi dósents í tilraunastjarneðlisfræði við skorina og leggur því eindregið til að honum verði boðið starfið“.

Gert er ráð fyrir því að Raunvísindastofnun greiði rannsóknaþátt launa beggja starfanna. Kennsluskylda í fullu starfi er rúmlega 800 vst eða rúmlega 1600 vst í báðum störfunum. Kennslu- og stjórnunarskylda í fullu starfi eru um 54%. Með ráðningu þeirra Einars Arnar og Páls fengi eðlisfræðiskor töfalda kennsluskyldu eða um 1600 vst og myndi greiða um 108% laun (54% + 54%). Árlegur sparnaður yrði um 3.500 þús. kr eða sem næmi kostnaði við greiðslu rúmlega 800 kennslu í yfirvinnu eða sem næmi kennsluskyldu miðað við fullt starf.

Gert yrði ráð fyrir því að þeir Einar Örn og Páll kæmu til starfa 1. ágúst 2008. Ráðið yrði í störfin til fjögurra ára.

Deildarráð samþykkti einróma að leggja til við rektor að dr. Einar Örn Sveinbjörnsson verði ráðinn í 100% starf dósents í tilraunaeðlisfræði og dr. Páll Jakobsson í 100% starf dósents í tilraunastjarneðlisfræði við eðlisfræðiskor raunvísindadeildar.

4. Framlenging á ráðningu Thors Aspelund í 50% starf dósents í tölfræði við stærðfræðiskor.

Samþykkt einróma tillaga stærðfræðiskorar um að leggja til við rektor að framlengja ráðningu Thors Aspelund í 50% starf dósents í tölfræði við stærðfræðiskor til eins árs frá og með 1. janúar 2008.

5. Rannsóknamisseri. Samþykkt einróma eftirfarandi rannsóknamisseri:

Efnafræðiskor: Hörður Filippusson prófessor á vormisseri 2008. Oddur Ingólfsson dósent á vormisseri 2008.

Jarðvísindaskor: Áslaug Geirsdóttir prófessor á vormisseri 2008.

6. Nemandamál í efnafræðiskor.

Fjórða próftaka. Nemandi í lífefnafræði sækir um að fara í próf í Stærðfræðigreiningu I C í fjórða sinn. Samþykkt einróma.

7. Verkefna- og fjárhagsáætlun raunvísindadeildar fyrir árið 2008.

Dreift til skorarformanna fjárhagsáætlun þeirra skora fyrir yfirstandandi ár auk heildaráætlunar deildarinnar fyrir árið í ár. Verkefnaáætlun ársins 2008 þarf að vera tilbúin frá öllum skorum þessa dagana, það er „Litla Excelblaðið“ en fjárhagsáætlun ársins 2008 á að skila til fjármálanefndar háskólaráðs í næstu viku.

8. Önnur mál.

8.1 Bréf/erindi, dags. 8. október 2007, frá Páli Einarssyni prófessor og Magnúsi Tuma Guðmundssyni prófessor um að færast milli skora.

-Lagt fram bréf/erindi, dags. 8. október 2007, til deildarforseta frá þeim Páli Einarssyni og Magnúsi Tuma Guðmundssyni prófessorum í jarðeðlisfræði um að færast úr eðlisfræðiskor yfir í jarðvísindaskor. Einnig er óskað eftir því að námskeið hinnar föstu jarðar flytjist úr eðlisfræðiskor yfir í jarðvísindaskor.

-Lagt fram bréf til rektors, dags. 8. ágúst 2006, ásamt greinargerð með hugmyndum um endurskipulagningu kennslu í jarðvísindum í Háskóla Íslands. Bréfið er frá öllum kennurum í jarðvísindum, það er í jarðfræði, jarðeðlisfræði og hafefnafræði, þar sem lýst er vilja til að sameina alla kennslu í jarðvísindum í einni skor.

-Lagt fram bréf til þáverandi deildarforseta, dags. 21. september 2006, sama efnis. Samþykkt að fela fjármálanefnd deildar að fara yfir fjárhagslegar forsendur fyrir flutningi þeirra Páls Einarssonar og Magnúsar Tuma Guðmundssonar úr eðlisfræðiskor yfir í jarðvísindaskor.

8.2 Lámarkseinkunn í raunvísindadeild við endurinnritun.

Eðlisfræðiskor samþykkti á fundi sínum þann 25. september 2007 að leggja til við deildarráð að núverandi reglum við endurinnritun verði breytt. Tillaga eðlisfræðiskorar er um að nemendur haldi einkunnum 5,0 og 5,5 við endurinnritun á fyrsta ár. Samkvæmt núverandi reglum flytjast einkunnir sem eru lægri en 6,0 ekki á nýjan feril nemanda við endurinnritun.

Tillögunn vísað til afgreiðslu og ályktunar í skorum og verður síðan tekin til afgreiðslu í deildarráði.

8.3 Endurnýjun tímarita skora í LBS-HBS.

Deildarforseti minnti skorarformenn á að fara yfir tímaritakaup í sínum skorum með það í huga hvaða tímarit eigi að endurnýja.

8.4 Nýr ytri vefur Háskóla Íslands-1. júlí 2008.

Deildarforseti minnti skorarformenn og skorir á að gera sér hugmyndir um upplýsingar sem þeir telja að þurfi að vera á nýjum ytri vef Háskóla Íslands sem ákveðið hefur verið að opna 1. júlí 2008. Gert er ráð fyrir tengiliðum frá deildum og stofnunum Háskólans við stýrihóp sem komið verður á fót. Hlutverk tengiliðanna verður að koma tillögum og hugmyndum bæði eigin og samstarfsmanna áfram til stýrihóps.

8.5 Vísindamenn í Fréttablaðinu.

Deildarforseti óskaði eftir því við skorir/skorarformenn að þeir kæmu með tillögur um einstaklinga/vísindamenn í skorum til kynningar í Fréttablaðinu en slíkar kynningar í Fréttablaðinu á síðast vetri gáfu góða raun. Skorarformenn hafi samband við Guðrúnu Bachmann á markaðs- og samskiptasviði um málið.

8.6 Styrkur úr Vísinda- og rannsóknarsjóði Fræðslunets Suðurlands-750.000 kr.

Skorir eru beðnar um að vekja athygli nemenda sinna á náms- og rannsóknarstyrk Fræðslunets Suðurlands árið 2007 að fjárhæð 750.000 kr. Upplýsingar veitir Ásmundur Sverrir Pálsson framkvæmdastjóri Fræðslunets Suðurlands. Sækja þarf um í síðasta lagi 3. nóvember næstkomandi.

8.7 Fulbright-kennarar.

Fulbright-stofnunin óskar eftir tillögum deildar og skora háskólastofnana um að fá Fulbright-kennara frá Bandaríkjunum til að kennslu eitt misseri háskólaárið 2009-2010. Tillögur þurfa að berast stofnuninni eigi síðar en 22. október næstkomandi. Skorir komi með tillögu um það á hvaða fræðasviði kennarinn yrði.

Fleira ekki tekið fyrir á fundi. Fundi slitið kl 15:15

Jón Guðmar Jónsson fundarritari