374. deildarráðsfundur raunvísindadeildar

aftur Yfirlitssíða fram

374. deildarráðsfundur raunvísindadeildar var haldinn föstudaginn 22. júní 2007, í VR-II, fundarherbergi VR-257, og hófst kl. 12:30.

Mættir voru:Hörður Filippusson, Lárus Thorlacius fyrir Magnús Tuma Guðmundsson, Ágúst Kvaran, Guðni Á. Alfreðsson, Áslaug Geirsdóttir og Inga Þórsdóttir. Fulltrúar nemenda voru Jón Steinar Garðarsson Mýrdal og Ragnhildur Einarsdóttir. Fundarritari var Jón Guðmar Jónsson.

Mál á dagskrá:

1.Fundargerð síðasta fundar.

Samþykkt án athugasemda.

2. Tillaga stærðfræðiskorar um ráðningu kennara í hagnýtta stærðfræði.

Samþykkt tillaga stærðfræðiskorar frá 18. júní síðastliðnum um að leggja til við rektor að Elínborgu Ingunni Ólafsdóttur verði boðið starf kennara í hagnýttri stærðfræði við stærðfræðiskor frá og með 1. júlí 2007. Sjö umsækjendur voru um starfið. Rökstuðningur stærðfræðiskorar var þessi: „Elínborg Ingunn hefur þá menntun og sérgrein sem fellur vel að þörfum skorarinnar bæði í kennslu og rannsóknum í hagnýttri stærðfræði“.

Samþykkt einróma að leggja til við rektor að Elínborg Ingunn verði ráðin í starfið.

3. Tillaga efnafræðiskorar um framgang Odds Ingólfssonar í starf prófessors.

Efnafræðiskor lagði til á fundi sínum þann 13. júní síðastliðinn að Oddur Ingólfsson hlyti framgang í starf prófessors. Rökstuðningur skorar þar sem skorin vitnar einnig í rökstuðning dómnefndar er þessi: „Efnafræðiskor hefur á fundi sínum þann 13. júní 2007 fjallað um álit dómnefndar, sem skipuð var til að meta hæfi Odds Ingólfssonar dósents til að hljóta framgang í starf prófessors. Formaður dómnefndar, Már Másson, prófessor, kom á fundinn og gerði grein fyrir áliti dómnefndar. "Það er einróma álit dómnefndar að Oddur Ingólfsson sé hæfur til að gegna starfi prófessors við raunvísindadeild Háskóla Íslands" eru niðurlagsorð dómnefndarálitsins.

Samþykkt einróma að leggja til við rektor að Oddur hljóti framgang í starf prófessors.

4. Vinnureglur raunvísindadeildar um veitingu starfa.

Deildarforseti lagði fram ný drög, breytt frá síðasta fundi um „Vinnureglur raunvísindadeildar um veitingu starfa“.

Nýju drögin voru samþykkt einróma.

5. Tilnefning fulltrúa raunvísinda- og verkfræðideilda í fjármálanefnd háskólaráðs.

Samþykkt einróma tillaga um að Hannes Jónsson prófessor verði fulltrúi raunvísinda- og verkfræðideilda í fjármálanefnd háskólaráðs en raunvísindadeild á aðalfulltrúa næstu tvö árin en verkfræðideild varafulltrúa.

6. Skilgreindar námsleiðir og viðmið.

Lagður fram listi yfir „Viðmið og námsleiðir“ í kennsluskrá. Á listanum kemur fram að í einstaka tilvikum vantar viðmið og í öðrum tilvikum vantar námsleiðir í Kennsluskrá. Deildarforseti hvatti skorarformenn til að fara yfir viðmið og námsleiðir og skilgreina viðmiðin og að sjá til þess að allar námsleiðir fari inn í Kennsluskrá.

7. Verklagsreglur um einkunnaskil.

Lagðar fram „Verklagsreglur um einkunnaskil“ samþykktar í háskólaráði þann 7. júní 2007. Einnig lagðar fram athugsemdir með reglunum.

8. Kennslustyrkir Aðstoðarmannasjóðs.

Lárus Thorlacius gerði grein fyrir málinu og fór yfir plagg gæðanefndar Háskólans, dags. 13. maí 2007; „Aðstoðarkennarastyrkir við Háskóla Íslands“ Með plagginu fylgdi orðsending: „Til deilda-Nýir styrkir á vegum Aðstoðarmannasjóðs: Aðstoðarkennarastyrkir til doktorsnema.“ Gert er ráð fyrir að styrkir Aðstoðarmannasjóðs séu ætlaðir sem rannsóknaframlag að fjárhæð kr. 1.200 þús. fyrir hvern doktorsnema á móti kennsluframlagi deildar sem skal nema kr.1000 þús. á hvern doktorsnema. Fyrir hvern meistaranema er rannsóknarframlagið kr. 800 þús. á hvern nemanda og kennsluframlag deildar það sama, kr. 800 þús. fyrir hvern nema. Áætlað vinnuframlag nemanda við kennslu er 360 vst á ári miðað við fullan styrk. Gert er ráð fyrir því að um 40 fullir styrkir verði til úthlutunar fyrir háskólaárið 2007/2008 samtals fyrir Háskóla Íslands. Lagt er til að skorarformenn athugi fyrir haustið 2007 hver kennsluþörfin sé fyrir næsta háskólaár og hvað þeir telji sig þurfa marga styrki miðað við kennsluþörfina. Athugað verði hver er: -Fjöldi doktorsnema sem vantar styrk -Fjöldi meistaranema sem vantar styrk.

Skilafrestur umsókna um aðstoðarkennarastyrki er 10. ágúst næstkomandi.

9. Handbók skorarformanna.

Deildarforseti minnti á drög að „Dagbók skorarformanna“ sem hann dreifði á síðasta fundi og að hann væri að vinna í „Handbók skorarformanna“.

10. Önnur mál

10.1 Nemendamál í land- og ferðamálafræðiskor.

Nemandi í land- og ferðamálafræðiskor óskar eftir því að fara í próf í Aðferðum 2 í fjórða sinn nú í sumar-sumarpróf 2007. Nemandinn áætlar að ljúka námi í febrúar 2008. Skor mælir með því að nemandanum verði heimilað að fara í prófið í 4. sinn. Samþykkt einróma.

10.2 Keilir-Framhaldsskóli-Frumgreinadeildarnámið á Miðnesheiði.

Deildarforseti minnti skorarformenn á að fara yfir námskröfur frumgreinadeildar á Miðnesheiði m.t.t. inntökuskilyrða raunvísindadeildar.

Fleira ekki tekið fyrir á fundi. Fundi slitið kl 14:45

Jón Guðmar Jónsson fundarritari