372. deildarráðsfundur raunvísindadeildar var haldinn föstudaginn 18. maí 2007, í VR-II, fundarherbergi V-257, og hófst kl. 12:30.
Mættir voru:Hörður Filippusson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Robert J. Magnus, Magnús Tumi Guðmundsson, Ágúst Kvaran, Guðni Á Alfreðsson, Áslaug Geirsdóttir, Magnfríður Júlíusdóttir og Inga Þórsdóttir. Fulltrúar nemenda á sínum fyrsta fundi, þau Rakel Sæmundsdóttir, Hvarf/Raunvera og Eiríkur Þór Guðmundsson, Hnallþóra/Raunvera. Fundarritari var Jón Guðmar Jónsson.
Samþykkt án athugasemda.
Nýir embættismenn jarðvísindaskorar og land- og ferðamálafræðiskorar eru þær Áslaug Geirsdóttir formaður jarðvísindaskorar og Magnfríður Júlíusdóttir formaður land- og ferðamálafræðiskorar. Mættu þær nú á sinn fyrst deildarráðsfund sem formenn hinna nýju skora en skorirnar eru til orðnar við skiptingu jarð- og landfræðiskorar í þessar tvær skorir.
Deildarforseti bauð þær Áslaugu og Magnfríði velkomnar.
Svohljóðandi bókun var gerð á fundi land- og ferðamálafræðiskorar þann 8. maí 2007, sbr. bréf skorarformanns, dags. 14. maí 2007:
„Á fyrsta skorarfundi land- og ferðamálafræðiskorar, 8. maí 2007, var kynnt álit dómnefndar sem skipuð var til að meta hæfi Guðrúnar Gísladóttur til að hljóta framgang í starf prófessors. Dr. Jón Eiríksson, formaður dómnefndar, rakti störf nefndarinnar og niðurstöður.
Nefndin mælir með því að Guðrún Gísladóttir hljóti framgang í starf prófessors við raunvísindadeild, þar sem hún uppfyllir skilyrði um menntun og heildarstig í rannsóknum, kennslu og stjórnun. Að mati nefndarinnar hefur hún sýnt breidd og gæði í rannsóknum og stíganda í birtingu í ritrýndum tímaritum. Einnig er bent á fjölda erinda á vísindaráðstefnum og að hún hafi sýnt lofsvert framtak í að kynna rannsóknir sínar fyrir almenningi og stjórnvöldum. Hún hefur leiðbeint fjölda mastersnema og tveimur doktorsnemum. Af ýmsum nefndar- og stjórnunarstörfum er m.a. tiltekin skorarformennska og formennska í einni af fagsviðsnefndum Alþjóða landfræðisambandsins.
Á skorarfundinum var einróma samþykkt að mæla með framgangi Guðrúnar Gísladóttur í starf prófessors“.
Deildarráð samþykkti einróma að óska eftir því við rektor að Guðrún Gísladóttir hljóti framgang í starf prófessors við land- og ferðamálafræðiskor raunvísindadeildar.
Svohljóðandi bókun var gerð á fundi land- og ferðamálafræðiskorar þann 8. maí 2007, sbr. bréf skorarformanns, dags. 14. maí 2007:
„Á fyrsta skorarfundi land- og ferðamálafræðiskorar, 8. maí 2007, var kynnt álit dómnefndar sem skipuð var til að meta hæfi Karls Benediktssonar til að hljóta framgang í starf prófessors. Dr. Gísli Pálsson, formaður dómnefndar, rakti störf nefndarinnar og niðurstöður.
Niðurstaða nefndarinnar er að Karl Benediktsson sé hæfur til að hljóta framgang í starf prófessors við raunvísindadeild, þar sem hann uppfyllir skilyrði um menntun og heildarstig í rannsóknum, kennslu og stjórnun. Þegar umsóknin var send inn voru rannsóknarstig rétt yfir mörkum, en síðan þá hafa m.a. bæst við tvær greinar í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum sem nefndin telur merki um stíganda á rannsóknarsviðinu. Að mati nefndarinnar hefur Karl sýnt breidd og dýpt í rannsóknum og skrifum, innan og utan Íslands, og hefur einnig sinnt því vel að miðla fræðilegri þekkingu út fyrir vísindasamfélagið. Í kennslukönnunum fær hann góða einkunn og hefur leiðbeint fjölda mastersnema. Meðal stjórnunar- og ritstjórnarstarfa eru tiltekin skorarformennska og ritstjórn Landabréfsins síðustu átta ár.
Á skorarfundinum var einróma samþykkt að mæla með framgangi Karls Benediktssonar í starf prófessors“.
Deildarráð samþykkti einróma að óska eftir því við rektor að Karl Benediktsson hljóti framgang í starf prófessors við land- og ferðamálafræðiskor raunvísindadeildar.
Svohljóðandi bókun var gerð á fundi land- og ferðamálafræðiskorar þann 8. maí 2007, sbr. bréf skorarformanns, dags. 14. maí 2007:
Á fyrsta skorarfundi land- og ferðamálafræðiskorar, 8. maí 2007, var kynnt álit dómnefndar sem skipuð var til að meta hæfi Önnu Dóru Sæþórsdóttur til að hljóta framgang í starf dósents við raunvísindadeild. Dr. Unnur Dís Skaptadóttir, formaður dómnefndar, rakti störf nefndarinnar og niðurstöður.
Niðurstaða nefndarinnar er að Anna Dóra Sæþórsdóttir uppfylli skilyrði um framgang í starf dósents, miðað við heildarstig í rannsóknum, kennslu og stjórnun. Að mati nefndarinnar hefur hún verið virk í rannsóknum frá því að hún var skipuð lektor og góð gæði séu á rannsóknum hennar. Í kennslu og stjórnun hefur hún átt stóran þátt í að byggja upp nýtt fræðasvið við Háskóla Íslands.
Á skorarfundinum var einróma samþykkt að mæla með framgangi Önnu Dóru Sæþórsdóttur í starf dósents.
Deildarráð samþykkti einróma að óska eftir því við rektor að Anna Dóra Sæþórsdóttir hljóti framgang í starf dósents við land- og ferðamálafræðiskor raunvísindadeildar.
Lögð fram drög dags. 8. maí 2007, að „Samningi Háskóla Íslands og Hólaskóla-Háskólans á Hólum vegna samstarfs um kennslu og rannsóknir í sjávar- og vatnalíffræði.
Lögð fram: „Greinargerð um aðstöðu og samstarf Líffræðistofnunar og líffræðiskorar við Hólaskóla“, sbr. ofangreind samningsdrög.
Deildarforseti kynnti málið og dreift var yfirliti um námið og námskrá fyrir frumgreinadeildarnám sem kennt verður í nýjum framhaldsskóla, Keili, á Miðnesheiði á fyrrum svæði Varnarliðsins.
Námið miðast við að þeir sem hefji námið séu nemendur sem hafi lokið tveimur til þremur árum í framhaldsskóla en ekki lokið honum.
Námið er í heild tvær til þrjár annir, tvær annir, 56 einingar, til undirbúnings náms í félagsvísindadeild og þrjár annir, alls 77 einingar, til ígildis frumgreinadeildarnáms sem var áður í Tækniskóla Íslands og lítur hinn nýi skóli svo á að þá sé undirbúningi undir nám í raunvísindadeild lokið.
Dreift var verklagsreglum um meðferð umsókna um störf háskólamanna, samþykktum í háskólaráði þann 15. febrúar 2007, en reglur þar um voru birtar í Lögbirtingablaði þann 26. mars 2007.
Deildarráð samþykkti að í verklagsreglum deildar, sem á eftir að semja og fá samþykktar, verði háttur raunvísindadeildar um aðkomu og afgreiðslu skora, eins og hefur verið, hafður á, að því marki sem hinar nýju reglur leyfa, það er að skorir hafi um ráðninguna að segja.
Deildarráð samþykkti að semja verklagsreglur um meðferð umsókna í samráði við lögfræðing starfsmannasviðs og vísindasvið, sem yrðu í samræmi við núverandi reglur deildar um aðkomu skora að ráðningu, að því marki sem hinar nýju reglur leyfa.
Tekið fyrir erindi nemanda í líffræðiskor sem sækir um fjórðu próftöku í Lífmælingum I. Líffræðiskor hafði samþykkt einróma, fyrir sitt leyti, á fundi sínum 4. apríl 2007 að heimila nemandanum fjórðu próftökuna með þeim fyrirvara að nemandinn hafi samband við kennara námskeiðsins varðandi undirbúning fyrir prófið.
Samþykkt einróma að heimila nemandanum fjórðu próftökuna í samræmi við samþykkt skorar.
Deildarforseti fór yfir stöðu mála varðandi skólaskiptinguna og sameiningu deilda. Þar kom fram að í þeim tillögum sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir að líffræðiskor verði áfram innan raunvísindadeildar, sem er í samræmi við vilja deildar/líffræðiskorar/Líffræðistofnunar, en fram höfðu komið hugmyndir í „skólaskiptingarnefndinni“ um að líffræðin yrði í „heilbrigðisvísindaskóla“.
Hins vegar kom fram að hugmyndir eru nú um að matvæla- og næringarfræðiskor verði að hluta eða öllu leyti innan „heilbrigðisvísindaskóla“
Engin önnur mál.
Fleira ekki tekið fyrir á fundi.
Fundi slitið kl 15:15
Jón Guðmar Jónsson fundarritari