367. deildarráðsfundur raunvísindadeildar

aftur Yfirlitssíða fram

367. deildarráðsfundur raunvísindadeildar var haldinn föstudaginn 2. febrúar 2007, í VR-II, fundarherbergi VR-257 og hófst kl. 12:30.

Mættir voru:Hörður Filippusson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Robert J. Magnus, Magnús Tumi Guðmundsson, Ágúst Kvaran, Guðni Ágúst Alfreðsson, Áslaug Geirsdóttir. Fulltrúar stúdenta, Ragnhildur Einarsdóttir (m&n). Fundarritari var Jón Guðmar Jónsson.

Mál á dagskrá:

1.Fundargerð síðasta fundar

Samþykkt án athugasemda.

2. Dómnefnd um starf sérfræðings á reiknifræðistofu Raunvísindastofnunar

Samþykkt tillaga sem borist hafði frá Hermanni Þórissyni prófessor og formanni reiknifræðistofu Raunvísindastofnunar, f.h. stofunnar, um að leggja til við rektor að Gunnar Stefánsson prófessor við stærðfræðiskor verði formaður dómnefndar um starf sérfræðings á reiknifræðistofu Raunvísindastofnunar

3. Dómnefnd um starf kennara í kennilegri eðlisfræði

Samþykkt tillaga eðlisfræðiskorar um að Lárus Thorlacius prófessor við eðlisfræðiskor verði formaður dómnefndar um starf kennara í kennilegri eðlisfræði.

4. Ályktun um skólaskiptingu-Vísað af deildarfundi til deildarráðs

Lagt fram endurskoðað „Minnisblað frá deildarfundi um endurskoðun á skiptingu Háskóla Íslands í skorir og deildir“. „Minnisblaðið“ hafði verið lagt fram á deildarfundi þann 26. janúar síðastliðinn. Deildarfundarmenn höfðu gert athugasemdir og var deildarforseti búinn að endurskoða og breyta „Minnisblaðinu“ í samræmi við þær athugasemdir.

Skorir raunvísindadeildar höfðu sent frá sér, hver í sínu lagi, umsögn sína um skiptingu Háskólans í skóla og svar til nefndar um skiptingu Háskólans í skóla við þeim þremur spurningum sem beint hafði verið til einstakra eininga Háskólans.

Farið var yfir endurskoðað „Minnisblað“ og gerðar breytingar á einstaka atriðum ásamt viðbótum. Lokagerð „Minnisblaðsins til nefndarinnar varð því svohljóðandi:

„Minnisblað frá raunvísindadeild

Til: Nefndar um endurskoðun á skiptingu HÍ í skorir og deildir

Vísað er til spurninga Ólafs Þ. Harðarsonar, formanns starfshóps háskólaráðs um endurskoðun á skiptingu Háskóla Íslands í deildir og skorir frá 18.12.2006. Málið var rætt á deildarfundi sem fól deildarráði að ganga frá svari við spurningunum.

Vakin er athygli á því að sumum þeirra álitamála sem upp koma í tengslum við endurskipulagningu grunneininga Háskólans, hvort sem þær kallast deildir eða skólar, svo og um tengsl milli eininga, verður ekki svarað að fullu fyrr en þær einingar hafa verið skilgreindar nánar að því er varðar stjórnkerfi þeirra, stjórnunarverkefni, fjárhagslegt sjálfstæði og sjálfstæði til athafna.

  1. Deildin telur að skipting HÍ í einingar eigi að grundvallist á faglegum forsendum. Skipting samkvæmt þeim meginlínum sem fram koma í flokkunarkerfi Frascati handbókarinnar er í samræmi við almennar hugmyndir um faglega skiptingu og ætti að fylgja þeim í meginatriðum.
  2. Raunvísindadeild telur eðlilegt að við Háskóla Íslands starfi háskóladeild sem sinnir kennslu og rannsóknum á hinu breiða sviði eðlis- og náttúruvísinda. Slíkar náttúruvísindadeildir eiga sér ríka hefð í háskólum heimsins og raunvísindadeild hefur löngu sannað afl sitt og mikilvægi, bæði í kennslu og rannsóknum. Samvinna fræðigreina deildarinnar að rannsóknum og kennslu er mikilvæg og mun fara vaxandi, ekki síst vegna aukinnar áherslu á rannsóknatengt framhaldsnám og þverfaglegar rannsóknir eins og stefna Háskólans stendur til.
  3. Deildin telur æskilegt að auka samstarf við læknadeild á sviði kennslu í grunngreinum lífvísinda og telur vel koma til greina að kennsla til BS-prófs í líffræði og matvæla- og næringarfræði og fyrrihlutanám í læknisfræði (eða pre-med nám til BS-prófs) verði að stórum hluta sameiginleg. Slík samvinna hefði í för með sér bæði fræðileg og hagræn samlegðaráhrif.
  4. Deildin telur að áframhaldandi samvinna við verkfræðideild um kennslu og rannsóknir sé mikilvæg fyrir báðar deildir og er reiðubúin til viðræðna um hvernig þeirri samvinnu verður fyrir komið í nýju skipulagi.
  5. Auk þeirra stofnana sem nú heyra undir deildina, Raunvísindastofnunar Háskólans og Líffræðistofnunar Háskólans, svo og Rannsóknastofu í næringarfræði, telur deildin mikilvægt að tengjast náið Tilraunastöðinni að Keldum.
  6. Deildin telur afar brýnt að hún sinni þjónustukennslu í kennslugreinum sínum fyrir aðrar deildir eins og verið hefur enda stuðlar það að auknum faglegum styrk þessara greina til hagsbóta fyrir allan skólann.
  7. Deildin telur að við sameiningu HÍ og KHÍ verði uppbygging raungreinamenntunar og kennsla og rannsóknir í raunvísindum samþætt eftir föngum með heildarhagsmuni þessara greina að leiðarljósi“.

5. Viðmið um prófgráður

Deildarforseti spurði skorarformenn hver staða málsins væri í þeirra skor varðandi frágang „viðmiða um prófgráður“. Sumar eru búnar eða langt komnar. Aðrar eru með málið í vinnslu. Skorir skili „viðmiðum um prófgráður“, á íslensku til kennslusviðs til þeirra Gísla Fannberg og Björns Þorsteinssonar fyrir 10. febrúar.

6. Önnur mál

6.1 Umsóknir í kennslumálasjóð

Deildarforseti minnti á auglýsingu á HI-starfi um umsóknarfrest í kennslumálasjóð en hann rennur út þann 1. mars næstkomandi.

6.2 Verklagsreglur um akademisk gestastörf

Deildarforseti vakti athygli á því að búið væri að gefa út reglur um akademisk gestastörf, sbr. samþykkt háskólaráðs frá 6. desember 2006.

6.3 Tengiliður deildar vegna fræðasviða, sem sótt er um viðurkenningu fyrir

Samþykkt tillaga deildarforseta að skrifstofustjóri deildar verði tengiliður deildar sem annast samskipti við sérfræðinganefnd ráðuneytisins vegna heimsóknar nefndarinnar til okkar. Jafnframt verður hann tengiliður við ráðuneytið (Rósu Gunnarsdóttur).

6.4 Val á fulltrúum stúdenta á deildarfundi og í deildarráð

Samkvæmt nýjum reglum Háskólans er deildum heimilt að ákveða sjálfar hvernig fulltrúum nemenda verður skipað á deildarfundi og deildarráðsfundi.

6.5 Skorarformenn/varaskorarformenn á háskólaárinu 2007/2008

Rögnvaldur G. Möller verður formaður stærðfræðiskorar frá og með háskólaárinu 2007/2008 og Ragnar Sigurðsson verður varaskorarformaður.

Skorir sem enn hafa ekki ákveðið hver verður skorarformaður og varskorarformaður frá og með miðju þessu ári geri það hið fyrsta.

6.6 Aðstöðuleysi á bókasafni á 3. hæð í VR-II

Formaður stærðfræðiskorar kom á framfæri kvörtunum stúdenta í stærðfræði vegna þess að ekki væru lengur föst borð til náms/lestrar á bókasafni.

6.7 Fjárhagsstaða/fjárhagsáætlun deildar árið 2007

Fyrirspurn frá formanni efnafræðiskorar um afgreiðslu fjárhagsáætlunar deildar. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við fjárhagsáætlun deildar af hálfu fjármálanefndar háskólaráðs en áætlunin var send frá deild með 9,8 Mkr halla.

Fleira ekki tekið fyrir á fundi.

Fundi slitið kl 15:00

Jón Guðmar Jónsson, fundarritari