366. deildarráðsfundur raunvísindadeildar

aftur Yfirlitssíða fram

366. deildarráðsfundur raunvísindadeildar var haldinn föstudaginn 19. janúar 2007 íTæknigarði, fundarherbergi inn af matsal og hófst kl. 12:30.

Mættir voru: Hörður Filippusson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Robert J. Magnus, Magnús Tumi Guðmundsson, Ágúst Kvaran, Guðni Ágúst Alfreðsson, Áslaug Geirsdóttir. Fulltrúar stúdenta, Ragnhildur Einarsdóttir (m&n) og Stefanía Sverrisdóttir. Harpa Pálsdóttir, fræðslustjóri Kennslumiðstöðvar og Ása Björk Stefánsdóttir verkefnisstjóri mættu vegna dagskrárliðar 2. Fundarritari var Jón Guðmar Jónsson.

Mál á dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar

Samþykkt án athugasemda.

2. Kynning á Kennslumiðstöð Háskóla Íslands

Harpa Pálsdóttir fræðslustjóri og Ása Björk Stefánsdóttir verkefnisstjóri mættu vegna þessa dagskrárliðar. Harpa kynnti starfsemi Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands og þá þjónustu sem þar er boðið upp á varðandi kennsluhætti, þróun þeirra og aðra stoðþjónustu. Rætt var meðal annars um það hvernig samstarfi raunvísindadeildar og Kennslumiðstöðvar yrði háttað, hugsanlega með samstarfssamningi. Framhaldið gæti orðið þannig að einstakar skorir og Kennslumiðstöð mótuðu markmið varðandi kennsluhætti ofl.

3. Viðmið um æðri menntun og prófgráður (Qualification Framework) og þekkingu, færni og hæfni (Learning Outcomes)

Frestað þar til síðar á fundinum.

4. Dómnefnd um framgang Odds Ingólfssonar dósents við efnafræðiskor í starf prófessors

Efnafræðiskor gerir að tillögu sinni að Már Másson prófessor við lyfjafræðideild Háskóla Íslands verði formaður dómnefndar um framgang Odds Ingólfssonar dósents við skorina í starf prófessors.

Samþykkt einróma.

5. Framgangur Jóns Ingólfs Magnússonar dósents við stærðfræðiskor í starf prófessors

Samþykkt einróma tillaga stærðfræðiskorar um að leggja til við rektor, í samræmi við niðurstöður dómnefndar og rökstuðning skorar, að Jón Ingólfur Magnússon dósent við stærðfræðiskor hljóti framgang í starf prófessors.

Rökstuðningur skorar:

Jón Ingólfur er viðurkenndur á alþjóðlegum vettvangi fyrir rannsóknir sínar. Hann er reyndur kennari og hefur mjög gott orð á sér fyrir kennslu. Hann hefur mikla reynslu af stjórnun. Stærðfræðiskor raunvísindadeildar telur Jón Ingólf uppfylla kröfur um framgang í starf prófessors.

6. Dómnefnd um hæfi kennara við stærðfræðiskor

Samþykkt tillaga stærðfræðiskorar um að Gunnar Stefánsson prófessor verði formaður dómnefndar um kennarastarf í hagnýttri stærðfræði.

Sjö umsækjendur voru um starfið.

7. Tillaga Bryndísar Brandsdóttur frá deildarfundi þann 12. janúar 2007

Rædd var tillaga Bryndísar Brandsdóttur formanns stjórnar Raunvísindastofnunar frá deildarfundi þann 12. janúar síðastliðinn um það að sérfræðingar Raunvísindastofnunar með hæfisdóm hefðu atkvæðisrétt á deildarfundum raunvísindadeildar.

Deildarforseti lagði til að málið yrði tekið til umfjöllunar í deild þegar umsagnir hefðu komið til deildar frá stofnunum hennar. Það var samþykkt.

3. Viðmið um æðri menntun og prófgráður (Qualification Framework) og þekkingu, færni og hæfni (Learning Outcomes)

Deildarforseti lagði fram drög að viðmiðum um æðri menntun og prófgráður (Qualification Framework) og þekkingu, færni og hæfni (Learning Outcomes) fyrir BS-nám og MS-nám í lífefnafræði. Drögin höfðu verið send til Gísla Fannberg verkefnisstjóra á kennslusviði. Athugasemdir höfðu borist frá honum og var þeim dreift.

Skorir þurfa að skila af sér fyrir 10. febrúar næstkomandi.

Deildarforseti óskaði eftir tillögum frá skorum um QF og LO innan hálfs mánaðar.

8. Önnur mál.

8.1 Svör skora um skiptingu Háskólans í „skóla“

Deildarforseti minnti á að nefndin um skiptingu Háskólans í „skóla“ hefði óskað eftir umsögnum/svörum skora fyrir 25. janúar næstkomandi.

8.2 Dagskrá deildarfundar þann 26. janúar næstkomandi.

Deildarforseti skýrði frá/minnti á dagskrá deildarfundar þann 26. janúar næstkomandi, það er:

a) Kjör deildarforseta og varadeildarforseta.

b) Kjör fulltrúa á háskólafund frá og með 1. júli 2007.

c) Stefnuskjöl deildar.

d) Skýrsla ytri úttektarnefndar.

8.3 Heimasíða deildar

Varadeildarforseti minnti á að það þyrfti að efla vef deildar meðal annars hvað upplýsingar um rannsóknir kennara og kennslu varðaði. Deildarforseti skýrði frá því að kynningarnefnd deildar ásamt Birni Gunnlaugssyni verkefnisstjóra á deildarskrifstofu ásamt skorum myndu vinna að eflingu heimasíðu deildar (verkefnisstjóri á deildarskrifstofu) og skora (skorarformenn eða þeir sem þeir ráða til þess verks).

8.4 Stokkakerfi

Fundarmenn gagnrýndu núverandi stokkakerfi, meðal annars með tilliti til matartíma og lítilla möguleika á að halda fundi í skorum vegna tímafyrirkomulags kennslunnar.

Fleira ekki tekið fyrir á fundi.

Fundi slitið kl 14:00

Jón Guðmar Jónsson, fundarritari