356. deildarráðsfundur raunvísindadeildar

aftur Yfirlitssíða fram

Dagskrá

356. deildarráðsfundur raunvísindadeildar var haldinn miðvikudaginn 10. maí 2006, í Tæknigarði, fundarherbergi inn af matsal og hófst kl. 12:30.

Mættir voru:

Hörður Filippusson, Robert J. Magnus, Magnús Tumi Guðmundsson, Ingvar Helgi Árnason, Guðmundur Hrafn Guðmundsson, Áslaug Geirsdóttir og Kristberg Kristbergsson. Fulltrúar stúdenta þau, Jón Steinar Garðarsson Mýrdal og Ragnhildur Einarsdóttir. Fundarritari var Jón Guðmar Jónsson.
Mál á dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar.

Samþykkt án athugasemda.

2. Mál afgreidd milli funda. Andmælendur við doktorsvörn Guðlaugs Jóhannessonar.

Andmælendur verða, skv. samþykkt deildarráðs milli funda, þeir: Dr. Jens Hjorth prófessor við Niels Bohr Institute, University of Copenhagen og
Dr. Ralph Wijers prófessor við Háskólann í Amsterdam-Astronomiacal Institute.

3. Tillögur um sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.

Lagt fram bréf menntamálaráðherra til rektors Háskóla Íslands um; „Tillögur um sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.

Deildarforseti gerði grein fyrir gangi mála í tillögum nefndar þeirrar sem skipuð var um sameiningu Háskólanna og sínum áherslum varðandi nauðsynlega aðkomu raunvísindadeildar að menntun raungreinakennara á grunnskóla- og framhaldsskólastigi. Samþykkt var að deildarforseti sendi umsögn til rektors um viðhorf raunvísindadeildar en fram kom að deildarráð er jákvætt fyrir sameiningu Háskólanna og þar með bættri menntun raungreinakennara sem væntanlega myndi leiða af sameiningunni.

4. Rannsóknamisseri

Eftirfarandi rannsóknamisseri voru samþykkt í samræmi við tillögur skora, að fenginni staðfestingu á að kennarar uppfylltu skilyrði þar um, svo sem uppfyllingu kennsluskyldu ofl., sbr. samþykktir háskólaráðs þar um.

Eðlisfræðiskor:

Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor. Haust 2006. Samþykkt.

Matvæla- og næringarfræðiskor:

Inga Þórsdóttir, prófessor. Haust 2006. Samþykkt.
Magnús Már Kristjánsson, dósent. Vor 2007 og haust 2007. Samþykkt.

5. Breyting á tímabundinni ráðningu kennara í líffræðiskor.

Liffræðiskor óskar eftir því að breyta ráðningu Zophoníasar Odds Jónssonar, dósents, þannig að hann verði ráðinn í 100% dósentsstarf við skorina. Líffræðiskor muni greiða kennsluhluta launanna en rektor hefur gefið vilyrði fyrir því að hann muni greiða rannsóknahluta launanna. Óskað er eftir þannig breyttri ráðningu til 3ja ára. Formaður líffræðiskorar mun gera nánari grein fyrir erindinu nauðsynlegum gögnum og formlegu samþykki rektors fyrir styrk til þess að greiða rannsóknahluta launanna. Málið verður tekið upp aftur á næsta fundi.

6. Nemandaerindi-Líffræðiskor.

Erindi hefur borist frá nemanda í BS námi í líffræðiskor, sem er innritaður haustið 2003, um að námskeiðið Almenn efnafræði 1 verði fært af landfræðiferli hans yfir á líffræðiferil hans. Einkunn nemandans var 4,0 í námskeiðinu sem var lágmarkseinkunn í einstökum námskeiðum (5,50 til að brautskrást) til haustsins 2004 en er 5,0 (5,00 til að brautskrást) frá og með háskólaárinu 2004/2005.

Lágmarkseinkunnina 6,0 í einstökum námskeiðum og meðaleinkunnina 6,00 þarf til að ná í framhaldsnámi.

Farið hefur verið yfir allar forsendur og námsframvindu nemandans frá því að hann innritaðist í landfræði haustið 2003. Í samræmi við reglur deildar samþykkir deildarráð að námskeiðið Almenn efnafræði 1 með einkunni 4,0 verði fært á feril nemandans í líffræði í samræmi við heimilaða lágmarkseinkunn í einstökum greinum til haustsins 2004 (til og með háskólaárinu 2003/2004).

7. Námskeið í mannerfðafræði.

Deildarforseti dreifði upplýsingum um framhaldsnámskeið í mannerfðafræði og skipulag námskeiðsins en námskeiðið verður kennt í samstarfi Háskóla Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar.

Deildarforseti hvatti skorarformenn til þess að kynna námskeiðið fyrir framhaldsnemum í sinni skor. Jafnframt yrði það háð samþykki hverrar skorar til hve margra eininga ætti að meta námskeiðið en í skipulagi námskeiðsins og mati er gert ráð fyrir því að það sé 5 einingar

8. Dómnefnd um framgang Jóns Ingólfs Magnússonar.

Deildarráð samþykkti tillögu stærðfræðiskorar um að Jón Kr. Arason prófessor verði formaður dómnefndar um framgang Jóns Ingólfs Magnússonar.

9. Önnur mál.

9.1 Tölfræðimiðstöð Háskóla Íslands.

Sett hefur verið á laggirnar Tölfræðimiðstöð Háskóla Íslands. Lögð var fram stofnskrá Tölfræðimiðstöðvar Háskóla Íslands en miðstöðin er innan reiknifræðistofu Raunvísindastofnunar HÍ. Reiknifræðistofa og stærðfræðiskor hafa samþykkt helmingaskipti í fjármögnun forstöðumanns. Í bráðabirgðastjórn sitja prófessorarnir Hermann Þórisson, Gunnar Stefánsson og Robert J. Magnus.

9.2 Jafnréttisnefnd deildar.

Skipa þarf jafnréttisnefnd deildar. Af hálfu matvæla- og næringarfræðiskorar hefur Ingibjörg Gunnarsdóttir verið tilnefnd.

9.3 Styrkur vegna útgáfu kynningarbæklings um nám í matvæla- og næringarfræði við Háskóla Íslands

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands hefur samþykkt að verða við beiðni um að styrkja útgáfu kynningarbæklings um nám í matvæla- og næringarfræði við Háskóla Íslands. Félagið hefur samþykkt að styrkja útgáfuna um allt að helmingi kostnaðar, þó ekki hærri fjárhæð en 150.000 kr.

9.4 Launalaust leyfi Franklíns Georgssonar lektors.

Rektor hefur fallist á ósk Franklíns Georgssonar, að fenginni tillögu matvæla- og næringarfræðiskorar, um launalaust leyfi frá störfum lektors við skorina frá 1. janúar til 31. desember 2006 til að gegna starfi við Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Mosambik, með mögulegri framlengingu til 31. desember 2007.

9.5 Styrkur til framhaldsnáms í Japan.

Deildarforseti vakti athygli á og skýrði frá styrk til framhaldsnáms í Japan sem Menntamálaráðuneyti Japans veitir til 2ja ára, sbr. bréf/tölvupóst sendiráðs Japans á Íslandi frá 17. mars síðastliðnum.

9.6 Umsögn um breytingar á námsskipan til stúdentsprófs

Deildarforseti dreifði plaggi frá kennslumálanefnd Háskólans, dags. 19. apríl sl., þar sem kemur fram umsögn einstakra deilda um tillögur Menntamálaráðuneytisins um breytinga á námsskipan til stúdentsprófs.

9.7 Rannsóknaþjónusta HÍ og doktorsnemar við verkfræði- og raunvísindadeildir.

Fulltrúar Rannsóknaþjónustunnar funduðu með fjórum doktorsnemum við verkfræðideild og fimm doktorsnemum við raunvísindadeild. Tilgangur fundarins var að: 1) Kynna Rannsóknaþjónustuna, 2) Kynna nokkra styrkjamöguleika, 3) Kynna evrópska rannsóknastarfatorgið.

Fleira ekki tekið fyrir á fundi.
Fundi slitið kl 14:15

Jón Guðmar Jónsson fundarritari