354. deildarráðsfundur Aftur Yfirlitssíða Fram

Dagskrá:

1. Samræmd stundatafla og stokkakerfi

Rekstrar- og framkvæmdasvið Háskólans hefur fengið Kristján Jónasson, dósent í tölvunarfræðiskor, til að gera tillögu um samræmdan tímaramma sem allar deildir skólans gættu sætt sig við og leyfði val á námskeiðum milli deilda. Kristján kom á fundinn undir þessum lið og kynnti hugmyndir sínar. Hann varpaði fram þrenns konar útfærslu á tímaramma en ein þeirra, 2 x 40 mínútna tímar með 10 mínútna frímínútum, virðist mælast best fyrir í skólanum. Talsverðar umræður urðu um þessi mál og hvernig fella ætti kennslu deildar að nýjum ramma. Kristján vék af fundi kl. 13:15.

2. Fundargerð síðasta fundar

Samþykkt án athugasemda.

3. Greining húsnæðisþarfar raunvísindadeildar

Dreift var greinargerð um húsnæðisþörf stærðfræði-, eðlisfræði-, efnafræði- og matvæla- og næringarfræðiskora. Greinargerðina tók saman nefnd skipuð þeim Herði Filippussyni, Jóni Ingólfi Magnússyni, Snorra Þorgeiri Ingvarssyni, Oddi Ingólfssyni og Kristberg Kristbergssyni. Við áætlun húsnæðisþarfar var farið eftir leiðbeiningum Australasian Association of Higher Education Facilities Officers um húsrými. Niðurstaðan er sú að þessar fjórar skorir þurfa 7.460 fermetra fyrir núverandi starfsemi og 13.569 árið 2011 ef fjöldaspár ganga eftir.

4. Skipun tækjakaupanefndar

Umsóknarfrestur í tækjakaupasjóð rennur út í dag, 15. mars. Tækjakaupanefnd deildar fer yfir umsóknir og forgangsraðar þeim. Samþykkt var að skipa í nefndina þá Sigurð S. Snorrason, formann, Snorra Þorgeir Ingvarsson og Bjarna Ásgeirsson.

5. Til kynningar

5.1 Vinnumatskerfi nýdoktora

Drögum að vinnumatskerfi nýdoktora var dreift á fundinum.

5.2 Mat stúdenta á gæðum náms við raunvísindadeild

Félagsvísindastofnun hefur kannað viðhorf kandídata háskólans 1993 og 2001 til gæða náms við deildirnar. Deildarforseti fór yfir niðurstöður varðandi kandídata raunvísindadeildar. Rædd var túlkun á ýmsum vísitölum í samantektinni.

5.3 Hagsmunafélag nemenda við raunvísindadeild

Nemendur í raunvísindadeild ætla að stofna sameiginlegt hagsmunafélag næstkomandi þriðjudag.

6. Önnur mál

6.1 Stefna vísinda- og tækniráðs 2006-2009

Deildarforseti dreifði drögum að stefnu vísinda- og tækniráðs og hvatti fundarmenn til að kynna sér þau vel enda myndu þau hafa mikil áhrif á stefnu háskólans.

6.2 Netföng skora

Áslaug Geirsdóttir lagði til að stofnuð yrðu föst netföng skora. Hver skorarformaður hefði þá á einum stað allan tölvupóst með erindum nemenda og svörum við þeim langt aftur í tímann, þegar fram liðu stundir. Tillögunni var vel tekið og ákveðið að láta af þessu verða.

6.3 Sameiginlegur deildarfundur v&r á föstudaginn kemur

Á föstudaginn kemur verður sameiginlegur deildarfundur verkfræði- og raunvísindadeilda þar sem kjörinn verður fulltrúi deildanna og varamenn hans í háskólaráði til næstu tveggja ára. Síðasta kjörtímabil átti raunvísindadeild fulltrúann og verkfræðideild varamenn.