352. deildarráðsfundur raunvísindadeildar aftur Yfirlitssíða fram

Dagskrá

352. deildarráðsfundur raunvísindadeildar var haldinn miðvikudaginn 8. febrúar 2006, í VR-II, - Fundarherbergi 257, og hófst kl. 12:30.

Mættir voru: Hörður Filippusson, Robert J. Magnus, Magnús Tumi Guðmundsson, Guðmundur Hrafn Guðmundsson, Áslaug Geirsdóttir og Kristberg Kristbergsson. Fulltrúar stúdenta þau, Jón Steinar Garðarsson Mýrdal og Ragnhildur Einarsdóttir. Fundarritari var Jón Guðmar Jónsson.

1. Fundargerð síðasta fundar.

Samþykkt án athugasemda.

2. Úttekt á raunvísindadeild. Undirbúningur sjálfsmatsskýrslu deildar.

(Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri á rektorsskrifstofu mætti á fundinn undir þessum dagskrárlið).

Fyrst og fremst er um að ræða úttekt á kennslu og námi.

Dreift var:
  1. Reglum um gæðaeftirlit.
  2. Ytri gæðaúttekt á raunvísindadeild Háskóla Íslands. Tíma- og verkáætlun. Feb. 2005/MDB.
  3. Bréfi Menntamálaráðuneytisins, dags. 20. desember 2005; Efni: Tilkynning um úttekt.
  4. Bréfi rektors, dags. 19. janúar 2006 um skipun sjálfsmatshóps.
  5. Bréfi Menntamálaráðuneytisins, dags. 23. janúar 2006, um fyrirhugaða úttekt á raunvísindadeild og leiðbeiningum um ytra og innra mat.

Magnús Diðrik fór yfir þau atriði sem tekin verða fyrir í fyrirhugaðri úttekt. Meðal annars benti hann á ýmis atriði sem komu fram í úttekt á lagadeild og hugvísindadeild en úttektir hafa verið gerðar á þeim tveimur deildum.

Málið var síðan rætt.

3. Skorarformenn og varaformenn skora háskólaárið 2006 til 2007.

Formenn og varaformenn skora háskólaárið 2006 til 2007 verða:

Formaður Varaformaður
Stærðfræðiskor: Robert J. Magnus Hermann Þórisson
Eðlisfræðiskor: Magnús Tumi Guðmundsson Lárus Thorlacius
Efnafræðiskor: Ágúst Kvaran Ingvar Helgi Árnason
Líffræðiskor: Guðmundur Hrafn Guðmundsson Guðrún Marteinsdóttir
Jarð- og landfræðiskor: Áslaug Geirsdóttir Ólafur Ingólfsson
Matvælafræðiskor: Inga Þórsdóttir Sigurjón Arason

4. Rannsóknamisseri:

Eftirfarandi rannsóknamisseri voru samþykkt í samræmi við tillögur skora, að fenginni staðfestingu á að kennarar uppfylltu skilyrði þar um, svo sem uppfyllingu kennsluskyldu ofl., sbr. samþykktir háskólaráðs þar um.

Matvæla- og næringarfræðiskor:
Kristberg Kristbergsson. Haust 2006.
Líffræðiskor:
Gísli Már Gíslason. Haust 2006.
Sigurður S. Snorrason. Haust 2006.

5. Skipun vara- varafulltrúa í stjórn meistaranáms í umhverfis- og auðlindafræðum.

Samþykkt var að Sigurður S. Snorrason verði varamaður Guðrúnar Gísladóttur, á vormisseri 2006, í námsstjórn í umhverfis- og auðlindafræðum en Guðrún er varamaður Karls Benediktssonar í námstjórninni. Karl er í rannsóknamisseri á vori 2006 og Guðrún verður erlendis á næstunni.

6. Erindi stærðfræðiskorar um ráðningu kennara við skorina.

Í samræmi við óskir stærðfræðiskorar um að ekki verði færri fastir kennarar við skorina en verið hefur, sjá greinargerð skorarformanns Roberts J. Magnus þar um, er óskað eftir því að ráða tvo dósenta við skorina. Annar yrði ráðinn tímabundið frá 1. ágúst 2006 til þess að leysa úr brýnni þörf sem fyrirsjáanleg yrði á haustmisseri, en starfið yrði auglýst síðar. Hitt dósentsstarfið yrði auglýst frá 1. janúar 2007. Hér er ekki um fjölgun kennara að ræða heldur það að halda óbreyttum fjölda frá því sem verið hefur en miklar mannabreytingar hafa verið í skorinni.

7. Framgangur Snæbjörns Pálssonar í starf dósents við líffræðiskor.

Líffræðiskor samþykkti samhljóða á fundi sínum þann 7. febrúar síðastliðinn að mæla með því að Snæbjörn Pálsson lektor í líffræðiskor fengi framgang í starf dósents.Er það í samræmi við niðurstöður dómnefndarálits frá 5. desember 2005.

Deildarráð gerir ekki athugasemdir við afgreiðslu skorar og óskað verður eftir því við rektor að framgangurinn komi til framkvæmda.

8. Önnur mál.

8.1 Vorblað Rannís.

Deildarforseti kynnti/minnti á orðsendingu, dags. 6. febrúar, frá Guðrúnu J. Bachmann kynningarstjóra til deilda um að þær sendi inn efni í vorblað Rannís en hlutverk blaðsins er að kynna rannsóknir og háskólastarf á aðgengilegan hátt fyrir almenningi.

Deildarforseti lagði áherslu á að deildin/skorirnar ættu að senda inn efni í blaðið og hvatti skorarformenn að sjá til þess að það yrði gert.

8.2 Álit á drögum að námskrá framhaldsskóla.

Deildarforseti minnti á að deild/skorir þyrftu að kynna sér drög að breytingum á námskrá framhaldsskóla og mynda sér skoðun á þeim breytingum.

8.3 Námsfulltrúar nemenda og kennslukannanir.

Jón Steinar fulltrúi nemenda skýrði frá því að fulltrúar nemendafélaga deildarinnar hefðu verið að funda að undanförnu um sín mál meðal annars um kennslukannanir í ljósi réttar nemenda til upplýsinga um niðurstöður kannananna og leiðir til þess að auka þátttöku í þeim.

Var það niðurstaða nemendafélaganna að æskilegast væri að einn nemandi í hverri skor myndi gegna því hlutverki að fara yfir niðurstöður könnunarinnar.

Jón Steinar óskaði eftir því að komið yrði af stað vinnu sem leiðir til virkjunar þessa réttar stúdenta. Vegna þess hvað hér er um að ræða viðkvæmar upplýsingar taldi hann æskilegt að haldinn yrði fundur með námsfulltrúunum þar sem farið yrði yfir trúnaðaskyldur þeirra og það hvernig þeir megi vinna með niðurstöður könnunarinnar.

8.4 Aðhald við inntöku nýnema, skráningar og fleira háskólaárið 2006/2007.

Deildarforseti kynnti bréf frá Þórði Kristinssyni framkvæmdastjóra akademiskrar stjórnsýslu um áframhaldandi aðhald ofl. vegna háskólaársins 2006-2007, sbr. samþykkt háskólaráðs frá 26. janúar 2006. Er sú samþykkt í samræmi við samþykktir um sömu mál sem hafa verið í gildi fyrir háskólaárin 2004-2005 og 2005-2006.

Fleira ekki tekið fyrir á fundi.
Fundi slitið kl 14:30
Jón Guðmar Jónsson
fundarritari