342. deildarráðsfundur, ósamþykkt fundargerð Fremri fundargerð Næsta fundargerð

342. deildarráðsfundur raunvísindadeildar var haldinn miðvikudaginn 15. júní 2005, í fundaherbergi í Tæknigarði og hófst kl. 12:30.

Mættir voru: Hörður Filippusson, Þorsteinn Vilhjálmsson, Jón Kr. Arason, Ingvar H. Árnason, Guðmundur Hrafn Guðmundsson, Ingibjörg Jónsdóttir og Kristberg Kristbergsson. Fundarritari var Jón Guðmar Jónsson.

Mál á dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar

Samþykkt með athugasemdum.

2. Dómnefnd um starf kennara í ferðamálafræðum

Samþykkt tillaga skorar um að Anna Karlsdóttir, lektor, verði formaður dómnefndar. Um starfið bárust sex umsóknir, í stafrófsröð, frá: Arnari Má Ólafssyni, Edward Hákoni Huijbens, Ingibjörgu Svölu Jónsdóttur, Katrínu Önnu Lund, Oddnýju Þóru Óladóttur og Rannveigu Ólafsdóttur.

3. Dómnefnd um starf kennara í næringarfræði

Samþykkt tillaga skorar um að Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor, verði formaður dómnefndar. Ein umsókn barst, frá Ingibjörgu Gunnarsdóttur.

4. Ráðning Snorra Þ. Ingvarssonar í dósentsstarf

Samþykkt hafði verið í deildarráði milli funda (tölvupóstsatkvæðagreiðsla) með öllum greiddum atkvæðum, að ráða Snorra Þ. Ingvarsson í starf dósents við eðlisfræðiskor, þannig að Raunvísindastofnun greiði rannsóknaþátt launanna.

Samþykkt hafði verið samhljóða í skor (7 já, 1 auður) og einróma í eðlisfræðistofu að Snorri Þór flytti frá eðlisfræðistofu og að Raunvísindastofnun greiddi rannsóknaþátt launanna.

5. Skipun andmælenda við doktorsvörn Guðrúnar Ólafsdóttur

Tillaga matvælafræðiskorar er að andmælendur verði prófessor Ragnar L. Olsen, Norwegian College of Fishery Science, Tromsø og prófessor Saverio Mannino, Universita degli Studi di Milano, DISTAM - Sez. Technologie Alimentari, Milano.

6. Tilnefning fulltrúa raunvísindasviðs raunvísinda- og verkfræðideilda, í fjármálanefnd háskólaráðs (sjá viðhengi)

Úr nefndinni hverfa af hálfu verkfræði- og raunvísindadeilda Robert J. Magnus, prófessor í raunvísindadeild, aðalfulltrúi og Magnús Þór Jónsson, prófessor í verkfræðideild, varafulltrúi.

Samkvæmt samkomulagi deildanna skiptast verkfræði- og raunvísindadeildir á að hafa aðalfulltrúa og varafulltrúa, þannig að komið er að verkfræðideild að hafa aðalfulltrúa 2005 til 2007.

Deildarráð samþykkti tillögu deildarforseta um að Inga Þórsdóttir, prófessor og Jón Ingólfur Magnússon, dósent verði tilnefnd til varafulltrúa, en rektor og háskólaráð hafa óskað eftir tilnefningu fulltrúa af báðum kynjum í nefndir og ráð, sbr. jafnréttisáætlun háskólans.

7. Innritun nýnema og skráning í námskeið 1. árs

Þann 13. júní sl. höfðu 220 nemendur skráð sig sem nýnema í raunvísindadeild. Á sama tíma í fyrra voru þeir 217 (sjá innan sviga). Sundurliðun í skorir kemur fram hér að neðan og einnig skráning nýnema í verkfræðideild.

Raun:

Stærðfræði: 28 (47)
Eðlisfræði: 22 (21)
Jarðeðlisfræði: 5 (3)
Efnafræði: 13 (15)
Lífefnafræði: 12 (5)
Líffræði: 59 (43)
Jarðfræði: 13 (25)
Landfræði: 14: (12)
Ferðamálafræði: 49 (27)
Ferðamálafræði (diplóma): 0 (7)
Matvælafræði: 5 (12)
Samtals: 220 (217)

Verk:

U&b: 61 (52)
V&i: 104 (86)
Efnav. 5 (6)
R&t: 39 (37)
T: 20 (27)
Hugb.: 10 (5)
Samtals: 239 (213)

8. Fjárhagsstaða deildar

Dreift var yfirliti yfir fjárhagsstöðu deildar og skora annars vegar, og samanburði við aðrar deildir hins vegar, fyrir mánuðina janúar-maí árin 2004 og 2005.

1. Fjárhagsyfirlit deildar og skora.
Útgjöld að frádegnum tekjum fyrir fyrstu fimm mánuði ársins 2005 eru 264 Mkr. en fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir 238 Mkr. fyrir sama tímabil eða 26 Mkr. umfram áætlun sem gerir tæp 11% umfram áætlun.
Útgjöld að frádregnum tekjum fyrir sama tímabil í fyrra var 246 Mkr. á móti 229 Mkr. í fjárhagsáætlun eða tæp 8% umfram áætlun.

2. Fjárhagsyfirlit deilda Háskólans.
Einnig var dreift samanburðaryfirliti yfir fjárhagsstöðu deilda Háskólans fyrir sömu tímabil, það er janúar-maí árin 2004 og 2005. Þar kom fram að þrátt fyrir þann halla sem er á deildinni þessa fimm mánuði ársins, er hann hlutfallslega minni en flestra annarra deilda Háskólans.

9. Vinnuaðstaða fyrrverandi kennara

Rætt var um vinnuaðstöðu fyrrverandi kennara og forsendur hennar bæði þegar kennarar fara á eftirlaun 70 ára og þegar þeir fara fyrr með lögbundnum hætti og/eða þegar gerðir eru við þá starfslokasamningar.

10. Álit kennsluháttanefndar III (dreift á síðasta fundi)

Deildarforseti ítrekaði að fundarmenn kynntu sér álitið.

11. Önnur mál

11.1 Yfirlýsing um forsendur og frelsi háskóla

Deildarforseti dreifði yfirlýsingu rektora allra háskóla um „Forsendur og frelsi háskóla“ en yfirlýsingin var samþykkt á fundi rektoranna nú í vor/sumar.

11.2 Samstarf raunvísindadeildar við KHÍ um raungreinakennslu

Rektor KHÍ óskar eftir fundi með forseta raunvísindadeildar og forseta hugvísindadeildar um samvinnu um raungreinakennaranám.

11.3 Síðasti deildarráðsfundur háskólaársins

Að lokum þakkaði deildarforseti deildarráðsmönnum störf þeirra og samvinnu í deildarráði á háskólaárinu sem er að ljúka. Sumir eru að hætta sem skorarformenn. Deildarráðsmenn þökkuðu deildarforseta samvinnuna.

Fundi slitið kl. 14:30.
Jón Guðmar Jónsson, fundarritari