339. deildarráðsfundur, ósamþykkt fundargerð

Miðvikudaginn 27. apríl 2005 kl. 12.40 var haldinn fundur í deildarráði raunvísindadeildar í fundarherberginu í VR-II.

Mætt voru:

Hörður Filippusson, Jón Kr. Arason, Þorsteinn Vilhjálmsson, Ingvar Árnason, Kesara Anamthawat-Jónsson, Ingibjörg Jónsdóttir og Kristberg Kristbergsson.

Þetta gerðist:

1. Fundargerð síðasta fundar

Samþykkt án athugasemda.

2. Fjárhagsstaða deildar

Dreift var yfirliti yfir stöðu deilda HÍ og stöðu skora raunvísindadeildar eftir fyrsta ársfjórðung. Staðan er ekki góð en ekki lakari en búist var við.

3. Rannsóknamisseri

Matvælafræðiskor hefur samþykkt að heimila Ágústu Guðmundsdóttur að fara í rannsóknamisseri haust 2005. Deildarráð samþykkti það fyrir sitt leyti.

Leiðrétt var bókun frá 317. deildarráðsfundi 12. nóvember 2003 þar sem sagði að Eggert Briem hefði sótt um rannsóknamisseri haust 2004 og vor 2005. Hið rétta er að hann hafði sótt um og skor samþykkt rannsóknamisseri haust 2004 og haust 2005.

4. Nemendamál

Upplýst var að nemendamálin þrjú, sem reifuð voru á síðasta fundi, hefðu verið leyst með þeim hætti að einn nemandi hefði fengið rýmkuð tímamörk vegna barnsburðar, hinir tveir hefðu endurinnritað sig.

5. Auglýsingar um kennarastörf í ferðamálafræðum og næringarfræði

Fjármálanefnd Háskólans hefur samþykkt beiðni deildar um þessi tvö kennarastörf.

Eftirfarandi tillaga að orðalagi auglýsingarinnar í ferðamálafræðum var borin upp:

Laust er til umsóknar starf háskólakennara í ferðamálafræði (lektors, dósents eða prófessors) við jarð- og landfræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands
Við jarð- og landfræðiskor hefur verið byggt upp þverfaglegt grunnnám í ferðamálafræði, með áherslu á náttúru, menningu og skipulag ferðamála. Unnið er að eflingu rannsóknanáms. Starfið felur í sér kennslu, rannsóknir og stjórnun skv. kjarasamningi. Æskilegt er að viðkomandi hafi reynslu af kennslu og rannsóknum í ferðamálafræði á háskólastigi og geti tekið þátt í uppbyggingu rannsóknanáms. Við ráðningu í starfið verður horft til þess hvort þekking og reynsla umsækjanda falli að áherslum og þörfum skorarinnar í ferðamálafræði.

Eftir nokkrar umræður var auglýsingin samþykkt.

Þá var borin upp svohljóðandi orðalag auglýsingar um næringarfræði:

Háskólakennari - Raunvísindadeild Háskóla Íslands
Við matvæla- og næringarfræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands er laust til umsóknar starf háskólakennara (prófessors, dósents eða lektors) í næringarfræði. Kennaranum er ætlað að kenna námskeið á sviði næringarfræði m.a. um faraldsfræðilega og lýðheilsufræðilega næringarfræði og lífvirk efni í matvælum. Einnig er honum ætlað að stunda rannsóknir á fræðasviðinu, þar með talið að leiðbeina nemendum í rannsóknaverkefnum auk þess að taka þátt í stjórnun. Gert er ráð fyrir að ráðið verði í starfið frá 1. nóvember 2005 eða samkvæmt samkomulagi. Umsækjendur skulu hafa lokið doktorsprófi í næringarfræði.

Þessi auglýsing var einnig samþykkt.

6. Mál til kynningar

6.1 Stjórnsýsluúttekt á Háskóla Íslands

Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar er komin út og er að finna á vefnum. Deildarforseti hvatti fundarmenn til að kynna sér rækilega þessa úttekt.

6.2 Þverfaglegt meistaranám í lýðheilsufræði

Deildarforseti sagði frá fyrirhuguðu þverfaglegu námi í lýðheilsufræði sem hagað verður með svipuðum hætti og meistaranáminu í umhverfis- og auðlindafræði.

6.3 Lyktir í deilumáli í stærðfræðiskor

Deildarforseti kynnti samkomulag Jóns Ragnars Stefánssonar og rektors. Samkomulagið var undirritað 20. apríl sl. og gerði deildarforseti grein fyrir helstu atriðum þess.

6.4 Handbók um skjalagerð

Dreift var nýútkominni handbók um skjalagerð sem skjalasafn háskólans lét taka saman. Í handbókinni er lýst hvernig ýmis skjöl eru sett upp og hvernig með þau er farið.

6.5 Skráningar í námskeið á haustmisseri 2005

Dreift var skráningartölum í námskeiðum næsta haust og óskaði deildarforseti eftir því við skorarformenn að þeir breyttu fjárhagsáætlunum sínum með hliðsjón af þessum tölum. Endurskoðaðar fjárhagsáætlanir á að leggja fram á næsta deildarráðsfundi.

6.6 Matshópur frá European University Association

Matshópur frá EUA vill hitta kennara, stúdenta, sérfræðinga og doktorsefni deildarinnar á fundum 12. maí næstkomandi.

6.7 Próf á ensku
Lagt fram bréf Ingvars H. Árnasonar. Efnafræðiskor fjallaði um málið á fundi sínum 6. apríl sl. Á fundinum voru margir á þeirri skoðun að greiða ætti aukalega fyrir þýðingu prófverkefna á ensku. Málið verður tekið upp aftur síðar.

7. Þróunaráætlun deildar og fyrirhuguð úttekt

Lagt fram heftið "Ytra mat háskóla: Leiðbeiningar fyrir sjálfsmat" frá menntamálaráðuneytinu, mars 2005. Stefnt er að því að gera úttekt á raunvísindadeild á næsta ári. Deildarforseti rakti ferli slíkra úttekta en fyrsta skrefið í því er sjálfsmat.

Þá dreifði deildarforseti punktum að þróunaráætlun raunvísindadeildar og óskaði eftir því að skorarformenn legðu fram hugmyndir og efni í áætlunina.

Fleira gerðist ekki
Fundi slitið kl. 14.10.