336. deildarráðsfundur

Miðvikudaginn 2. mars 2005 kl. 12.40 var haldinn fundur í raunvísindadeild í fundarherberginu í VR-II.

Mætt voru:

Hörður Filippusson, Jón Kr. Arason, Þorsteinn Vilhjálmsson, Ingvar Árnason, Kesara Anamthawat-Jónsson, Ingibjörg Jónsdóttir og Magnús Már Kristjánsson. Fundarritari var Pálmi Jóhannesson.

Þetta gerðist:

1. Fundargerð síðasta fundar

Samþykkt með athugasemd um að Robert J. Magnus hefði verið kjörinn formaður dómnefndar um sérfræðingsstöðu á Raunvísindastofnun.

2. Afgreiðsla mála milli funda

2.1 Undanþága frá námsáætlun

Samþykkt var á netdeildarráðsfundi að gefa stúdent undanþágu frá námsáætlun í lífefnafræði þar eð skyldunámskeið á leiðinni hafði verið fellt niður. Stúdentinn brautskráðist 26. febrúar sl.

2.2 Dómnefndir um framgang

Samþykkt var á netdeildarráðsfundi að tilnefna Þórð Jónsson formann dómnefndar um framgang Rögnvalds G. Möllers fræðimanns í starf vísindamanns.

2.3 Ráðningar aðjúnkta

Samþykkt var á netdeildarráðsfundi að heimila stærðfræðiskor að framráða sem aðjúnkta (að gömlum skilningi) við skorina þau Freyju Hreinsdóttur, Ragnar Sigurðsson og Rögnvald G. Möller. Ráðningartími Freyju yrði frá 1. febrúar sl. en hinna frá 1. janúar.

3. Tillaga líffræðiskorar um ráðningu Snæbjarnar Pálssonar í stöðu lektors

Deildarforseti fór yfir málavexti, sbr. síðustu fundargerð. Fjármálanefnd deildar mælti með því að leitað yrði eftir leyfi fjármálanefndar háskólaráðs til að ráða Snæbjörn í stöðu lektors þar sem 57% launa verði greidd af deild og 43% af rannsóknafé. Samþykkt var að deildarforseti sendi fjármálanefnd háskólans erindi um málið.

4. Framhald ráðningar Guðmundar Óla Hreggviðssonar við líffræðiskor

Guðmundur Óli var ráðinn tímabundið í 50% starf lektors við líffræðiskor í afleysingum fyrir Jakob K. Kristjánsson. Jakob hefur nú sagt starfi sínu lausu. Guðmundur Óli á rétt á ótímabundinni ráðningu. Líffræðiskor á eftir að fjalla formlega um málið en deildarráð samþykkti fyrir sitt leyti að heimilt væri að framráða hann.

5. Rannsóknamisseri Kristjáns Jónassonar

Kristján Jónasson hefur óskað eftir rannsóknamisseri haustið 2005 og hefur stærðfræðiskor fallist á ósk hans. Deildarráð heimilar Kristjáni fyrir sitt leyti að fara í rannsóknamisseri.

6. Tilnefning í ritnefnd Aldarsögu Háskóla Íslands

Borist hefur bréf frá Þórði Kristinssyni með ósk um að raunvísindadeild tilnefni fulltrúa í ritnefnd Aldarsögu Háskóla Íslands. Deildarforseti nefndi nokkra sem til greina kæmu og var að lokum falið að ganga frá tilnefningunni.

7. Tilnefning í námsstjórn fyrir meistaranám í umhverfis- og auðlindafræðum

Þórður Kristinsson hefur sent deildarforseta bréf og óskað tilnefningar deildar á fulltrúa í námsstjórn meistaranáms í umhverfis- og auðlindafræðum. Rætt var um hverjir væru heppilegir fulltrúar í námsstjórnina og var deildarforseta að lokum falið að ganga frá tilnefningu.

8. Til kynningar

8.1 Embættismenn skora

Formenn skora næsta skólaár verða þessir, varamenn eru innan sviga: Stærðfræðiskor: Robert J. Magnus, (Hermann Þórisson)
Eðlisfræðiskor: Magnús Tumi Guðmundsson (varaformaður ákveðinn á fundi í dag)
Efnafræðiskor: Ingvar Árnason (Jón Ólafsson)
Líffræðiskor: Ákveðið á fundi síðar í vikunni.
Jarð- og landfræðiskor: Ólafur Ingólfsson og Ingibjörg Jónsdóttir skipta með sér formennsku, varaformaður ákveðinn síðar. Matvælafræðiskor: Kristberg Kristbergsson (Inga Þórsdóttir)

8.4 M.Paed.-námið

Háskólaráð hefur afgreitt reglur raunvísindadeildar um M.Paed. námið og verða þær felldar inn í 117. lið reglna fyrir Háskóla Íslands.

8.3 Háskólafundurinn 18. febrúar sl.

Deildarforseti sagði frá helstu málum sem rædd voru á síðasta háskólafundi.

9. Önnur mál

Jarð- og landfræðiskor hefur fengið erindi þriggja stúdenta sem óska eftir að um þá gildi reglur um nám sem hlutastarf en sóttu ekki um það innan tilskilins frests. Jarð- og landfræðiskor mælir með erindum þeirra enda hafi þeir góðar og gildar ástæður fyrir öðrum námshraða en reglur mæli fyrir um. Málið var kynnt en verður afgreitt síðar.

Fleira gerðist ekki
Fundi slitið kl. 14.05.