Dagskrá:
Deildarforseti tilkynnti niðurstöður úr kjöri heiðursdoktora raunvísindadeildar en tæplega 80% deildarfundarmanna tóku þátt í kjörinu á vef Uglunnar utan deildarfundar og samþykktu að vísindamennirnir David Attenborough og Kristján Sæmundsson yrðu heiðursdoktorar raunvísindadeildar og útnefndir á háskólahátíð, Attenborough reyndar við brautskráningu í júní.
Stefnuplagg raunvísindadeildar fyrir árin 2006-2011 hafði verið sent út
fyrir fundinn og lá einnig fyrir fundinum.
Miklar umræður urðu um stefnu raunvísindadeildar fyrir árin 2006-2011.
Eftirfarandi tillögur komu fram:
Breytingartillögur við texta á bls 9 í stefnudrögum:
Tillaga Haralds Ólafssonar:
Í stað eftirfarandi texta : "Til þess að takast megi að laða að erlenda nemendur og sinna þeim í kennslu er þörf á að alþjóðavæða háskólaumhverfið. Það felst m.a. í því að bjóða kennslu á ensku, að skipulagslegar og félagslegar upplýsingar fyrir nemendur séu til reiðu á ensku, að félagslegt umhverfi skapist fyrir erlenda nemendur og að viðmót háskólasamfélagsins taki mið af nærveru erlendra nemenda."
komi: "Til að sinna erlendum nemendum er þörf á að bjóða félagslegt umhverfi sem þeim hentar og kennslu á ensku þegar við á"
Tillaga Odds Ingólfssonar var sú að síðari málsgreinin hljóði svo:
"Það felst m.a. í því að bjóða kennslu á ensku þegar við á, að skipulagslegar ..."
Tillaga Haraldar var felld en tillaga Odds var samþykkt.
Breytingartillögur við texta á bls 14:
Í stað orðanna: "Leitað verði eftir framboðum til embættanna"
komi:
Tillaga Þorsteins Vilhjálmssonar: "Auglýst verði eftir umsóknum um starf deildarforseta"
Tillaga Snorra Þórs Sigurðssonar: "Leitað verði eftir umsóknum um starf deildarforseta. Unnt er að ráða einstakling utan skólans í starf deildarforseta"
Tillaga Snorra var samþykkt og tillaga Þorsteins var þá dregin til baka.
Stefna raunvísindadeildar var síðan lögð fram í heild og samþykkt með þorra
atkvæða.