Dagskrá:
Ágúst Ingþórsson, forstöðumaður Rannsóknaþjónustu Háskólans, kom á fundinn og lýsti í stuttu máli fyrirkomulagi varðandi hugverk starfsmanna Háskólans og hagnýtingu á þeim. Lög um þetta efni tóku gildi 1. janúar 2005. Starfsmönnum Háskólans ber að tilkynna um einkaleyfatækar hugmyndir. Ef Háskólinn nýtir sér ekki rétt sinn til að hagnýta hugmynd þá á starfsmaðurinn allan rétt og getur nýtt hana eftir hentugleikum.
Þá hefur Rannsóknaþjónustan staðið fyrir samkeppninni "Upp úr skúffunum" sem á að stuðla að því að hugmyndir og rannsóknaniðurstöður verði hagnýttar.
Samþykkt
Bornar voru upp tillögur um tvo heiðursdoktora, þá David Attenborough og Kristján Sæmundsson. Deildarmenn greiða heiðursdoktorum atkvæði í nýju rafrænu kosningakerfi uglunnar og verður aðgangur að því opnaður síðar í dag.
Drög að heildarstefnu Háskólans höfðu verið lögð fram fyrir fundinn. Deildarforseti bar upp svohljóðandi tillögu að ályktun fundarins
Deildarfundur í raunvísindadeild 31. mars 2006 lýsir yfir ánægju með framlagt skjal, "STEFNA HÁSKÓLA ÍSLANDS 2006 - 2011" og styður í öllum meginatriðum þau markmið um framþróun Háskólans og aðgerðir sem þar koma fram.
Fundurinn leggur þó til eftirfarandi breytingar á skjalinu
Tvær breytingartillögur við stefnudrögin voru bornar upp. Sú fyrri var frá Ingvari H. Árnasyni og hljóðaði svo
Raunvísindadeild telur mikilvægt að skýrt verði tekið fram í framtíðarsýn varðandi aðstæður til rannsókna, kennslu og samskipta, að í tengslum við Vísindagarða í Vatnsmýrinni verði reist setur fyrir raunvísindi og verkfræði og öll starfsemi deildanna verði þar sameinuð
Að hinni tillögunni stóðu þeir Hermann Þórisson og Lárus Thorlacius og hljóðar hún svo:
Aftast við næstsíðasta punktinn á síðu 8 í drögunum komi eftirfarandi setning:
Komið verði á fót aðstoðarkennarastöðum fyrir framhaldsnema án tafar.
Um stefnumótun Háskólans og breytingartillögurnar spunnust miklar umræður. Að lokum var gengið til atkvæða um tillögurnar
Tillaga Ingvars var borin upp og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Tillaga þeirra Hermanns og Lárusar var borin upp og samþykkt með öllum
greiddum atkvæðum.
Að lokum var ályktunartillaga deildarforseta borin upp og samþykkt með öllum
greiddum atkvæðum.