106. deildarfundur Fremri fundargerð Næsta fundargerð

Miðvikudaginn 24. mars 2004 kl. 13:15 var haldinn fundur í raunvísindadeild í stofu 158 í VR-II. Mætt voru Hörður Filippusson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Ari Ólafsson, Ágústa Guðmundsdóttir, Áslaug Geirsdóttir, Baldur Símonarson, Eggert Briem, Einar Árnason, Einar H. Guðmundsson, Guðmundur G. Haraldsson, Guðmundur Hrafn Guðmundsson, Guðni Á. Alfreðsson, Guðrún Marteinsdóttir, Haraldur Ólafsson, Ingvar Árnason, Jón Ingólfur Magnússon, Jón K.F. Geirsson, Jón Ólafsson, Jón Ragnar Stefánsson, Karl Benediktsson, Kesara Anamthawat-Jónsson, Kristberg Kristbergsson, Lárus Thorlacius, Magnús Már Kristjánsson, Ólafur S. Andrésson, Páll Hersteinsson, Sigurður S. Snorrason, Viðar Guðmundsson, Zophonías O. Jónsson, Þorsteinn Vilhjálmsson, Örn Helgason, Freyja Hreinsdóttir, Ragnar Sigurðsson, Rögnvaldur G. Möller, Sigurður H. Richter, Svana H. Stefánsdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Henning A. Úlfarsson, Sigurður H. Markússon, Elías Már Guðnason, Sæmundur Ari Halldórsson, Bryndís Marteinsdóttir, Erla Eir Eyjólfsdóttir, Snorri Sigurðsson, Sindri Traustason, Katrín Ásta Stefánsdóttir, Óskar H. Auðunsson. Forföll boðuðu Jón Kr. Arason og Sigurður Steinþórsson. Fundarritari var Pálmi Jóhannesson.

Þetta gerðist:

1. Fundargerð síðasta fundar

Samþykkt án athugasemda.

2. Reglur um raunvísindastofnun

Tillögum stjórnar Raunvísindastofnunar að breyttum reglum um stofnunina hafði verið dreift fyrir fundinn. Viðar Guðmundsson, formaður stjórnar, reifaði málið. Ýmsar fyrirspurnir komu fram og vörðuðu þær fyrst og fremst heiti þeirrar stofnunar sem á að rúma eðlisfræði, efnafræði og stærðfræði, en í tillögu stjórnarinnar var notað um hana vinnuheitið Eðlisvísindastofnun.

Lögð var fram tillaga um að stofnunin héti Eðlis-, efna- og stærðfræðistofnun. Þá kom fram önnur tillaga um að stofnunin héti Eðlis- og lífvísindastofnun. Samþykkt var að greiða atkvæði um þessa þrjá kosti. Ef enginn fengi meirihluta yrðu þá aftur greidd atkvæði milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlytu.

Eðlisvísindastofnun hlaut 13 atkvæði, Eðlis-, efna- og stærðfræðistofnun 23, Eðlis- og lífvísindastofnun 1, auðir seðlar og ógildir voru 9.

Við síðari atkvæðagreiðslu hlaut Eðlisvísindastofnun 15 atkvæði en Eðlis-, efna- og stærðfræðistofnun 25, auðir og ógildir seðlar voru 6. Reglurnar, með þessari breytingu, voru því næst bornar upp og samþykktar samhljóða.

3. Tillaga til breytinga á 119. grein reglna Háskóla Íslands varðandi lágmarkseinkunnir og framvindukröfur í raunvísindadeild

Jarð- og landfræðiskor hefur lagt fram tillögu um að lágmarkseinkunn í deild verði hækkuð í 5,0 og framvindukröfum verði breytt. Efnafræði- og matvælafræðiskorir hafa fjallað um tillögurnar á fundum og lýst yfir fylgi við breytingar. Karl Benediktsson lagði fram tillögu, sem hann hafði samið ásamt Þóru Ellen Þórhallsdóttur, um að 119. grein yrði orðuð svona:

119. gr. Námsframvinda, tímamörk og einkunnir

Stúdent skal ljúka prófi í öllum námskeiðum fyrsta kennsluárs fyrir lok annars námsárs síns og í öllum námskeiðum annars kennsluárs fyrir lok þriðja námsárs, ella glatar hann rétti til þess að halda náminu áfram.

Stúdent í BS-námi skal enn fremur ljúka prófi með tilskildum árangri og ávinna sér svo margar námseiningar er hér segir:

Eftir fyrsta ár 20 einingar; eftir annað ár 45 einingar; eftir þriðja ár 70 einingar; eftir fjórða ár 90 einingar.

Heimilt er deildinni að víkja frá ákvæðum l. og 2. mgr. um tímamörk og námshraða, ef stúdent hefur ekki vanrækt námið og horfur eru á að hann geti lokið því.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og um skráningu úr öðrum deildum eða milli aðalgreina í raunvísindadeild.

Til þess að standast BS-próf verður stúdent að hafa hlotið:

l. Eigi lægra en 5,0 í hverri prófgrein.

2. Eigi lægri meðaleinkunn en 5,5.

Gerð var tillaga um að krafan um lágmarksmeðaleinkunn yrði felld niður. Þá var einnig gerð tillaga um að felldar yrðu niður kröfurnar um námsframvindu. Samþykkt var með öllum atkvæðum gegn einu að vísa síðarnefndu tillögunni til umfjöllunar í deildarráði. Tillagan um að fella burt kröfuna um 5,5 í meðaleinkunn var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn einu. 119. grein þannig breytt var borin upp og samþykkt samhljóða.

4. Fjárhagur deildar, staða og horfur

Fjárhagsáætlun deildar 2004 var send til fjármálasviðs háskólans í gær. Skorir hafa farið rækilega yfir áætlanir sínar og skorið niður valnámskeið en þrátt fyrir það stefnir í að hallinn á árinu verði 17 miljónir. Helstu ástæður fyrir slæmri stöðu deildarinnar eru að deildin er að kenna fleiri stúdentum en hún fær greitt fyrir og að launastikan er verulega lægri en raunveruleg laun kennara eru. Vegna þessara liða fær deildin 130 milj. kr. lægri fjárveitingu en ella.

Fleira gerðist ekki.
Fundi slitið kl. 14:56.

Fylgigögn: Greinargerð með fjárhagsáætlun deildar
Yfirlit yfir kennitölur rekstrar