248. deildarráðsfundur

Dagskrá

Miðvikudaginn 12. janúar 2005 kl. 12.30 var haldinn fundur í deildarráði verkfræðideildar í fundarherberginu í VR-II. Mætt voru Sigurður Brynjólfsson, Sigurður Erlingsson, Jónas Elíasson, Ólafur Pétur Pálsson, Jóhannes R. Sveinsson, Helgi Þorbergsson, Andri H. Kristinsson, Hulda Hallgrímsdóttir og Unnar Steinn Sigtryggsson. Fundarritari var Pálmi Jóhannesson.

Þetta gerðist:

1. Fundargerð síðasta fundar

Samþykkt án athugasemda.

2. Til kynningar

2.1 Afmælisráðstefna Vigdísarstofnunar

Vigdís Finnbogadóttir á 75 ára afmæli í apríl næstkomandi. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttir efnir í því tilefni til alþjóðlegrar ráðstefnu í Reykjavík undir kjörorðinu Dialogue of Cultures. Til stendur að verkfræðideild verði með málstofu á ráðstefnunni og myndi umfjöllunarefnið tengjast verkfræði og hugvísindum. Málið var rætt og mörgum hugmyndum hreyft. Ákvörðun verður tekin á næsta fundi.

2.2 Stærðfræðigreining IIB

Fyrsti fyrirlestur í Stærðfræðigreiningu IIB féll niður í gærmorgun vegna vandkvæða í stærðfræðiskor. Deildarforseti boðaði forseta raunvísindadeildar og formann stærðfræðiskorar á sinn fund í gær til að ræða þessi mál. Hann skýrði stuttlega hvað þarna hefði átt sér stað.

3. Umsögn um frumvarp um Tækniháskóla Íslands

Á Alþingi hefur verið lagt fram frumvarp um Tækniháskóla Íslands og er óskað eftir umsögn verkfræðideildar um frumvarpið. Frumvarpið með greingargerð og drögum deildarforseta að umsögn var lagt fram á fundinum. Málið var rætt og deildarforseta síðan falið að ganga frá umsögn með hliðsjón af umræðunum. Umsögnin verður kynnt deildarráðsmönnum áður en hún verður send Alþingi.

4. Kynningarmál

Kynningarnefnd hefur setið á rökstólum með fulltrúum stúdenta og rætt kynningu á verkfræðideild í framhaldsskólum landsins. Fyrirkomulaginu verður breytt að einhverju leyti.

Háskólinn mun sennilega kynna nám við skólann í febrúar og verður ekki í samfloti með öðrum skólum á háskólastigi.

Þá nefndi deildarforseti að hann hygðist bjóða sviðsstjórum framhaldsskóla á fund til að kynna verkfræðinámið og æskilegan undirbúning fyrir það.

Um þessi mál öll urðu líflegar umræður.

5. Fjöldatakmarkanir, undanþágur, inntaka í janúar, lágmarksframvinda

Lagt var fram bréf Þórðar Kristinssonar til deildaforseta háskólans. Miklar umræður urðu um fjóra liði bréfsins.

Fram kom stuðningur nokkurra deildarráðsmanna við að deildin færi fram á fjöldatakmörkun 2006-2007 og voru tilgreind rök fyrir því.

Nemendum, sem fengið hafa undanþágu frá stúdentsprófi til að hefja nám í verkfræði, hefur yfirleitt gengið illa. Þó eru undantekningar frá því og var bent á að þeir sem lokið hefðu prófi af rafiðnasviði í Iðnskólanum hefðu spjarað sig vel í rafmagns- og tölvuverkfræði.

Fundarmenn voru almennt á því máli að taka ætti upp meiri stýringu á námsframvindu, t.d. með forkröfum. Rafmagns- og tölvuverkfræðiskor hefur ákveðið að framfylgja forkröfum og á fundinum var dreift tillögu að forkröfukerfi sem rædd hefur verið í u&b. Menn voru ásáttir um að deildin í heild þyrfti að beita forkröfum til að stýra námsframvindu.

Teygst hafði á umræðum og var samþykkt að fresta liðum 6 og 7 á dagskrá.

8. Önnur mál

8.1 Meistaranefndir
U&b: Atli Gunnar Árnason
Leiðbeinendur Sigurður Erlingsson og Bjarni Bessason. Lagt var til að Jónas Elíasson yrði fulltrúi deildar.
R&t: Ari Vésteinsson
Leiðbeinendur Jóhannes R. Sveinsson og Henrik Aanæs. Lagt var til að Jón Atli Benediktsson yrði fulltrúi deildar.

Meistaranefndir og fulltrúar deilda skv. þessum tillögum voru samþykkt samhljóða.

8.2 Tillaga að próftöflu

Nemendur hafa unnið drög að próftöflu í maí fyrir verkfræðinema, byggða á stokkakerfinu. Drögunum var dreift og lýstu fundarmenn yfir ánægju með framtakið.

Fundi var síðan frestað kl. 14:10.