246. deildarráðsfundur

Dagskrá

Miðvikudaginn 1. desember 2004 kl. 12.05 var haldinn fundur í deildarráði verkfræðideildar í fundarherberginu í VR-II. Mættir voru Sigurður Brynjólfsson, Sigurður Erlingsson, Jónas Elíasson, Ólafur Pétur Pálsson, Jóhannes R. Sveinsson, Helgi Þorbergsson og Unnar Steinn Sigtryggsson. Fundarritari var Pálmi Jóhannesson.

Þetta gerðist:

1. Fundargerð síðasta fundar

Samþykkt án athugasemda.

2. Til kynningar

2.1 Umhverfis- og sjávarútvegsstofnanir

Deildarforseti kynnti samantekt sína og stjórnarformanna þessara stofna á samstarfi verkfræðideildar og nýrri Umhverfis- og auðlindastofnun.
Málið var rætt.

2.2 Ársfundur verkfræðistofnunar

Deildarforseti dreifði möppum sem höfðu verið útbúnar fyrir ársfund verkfræðistofnunar á föstudaginn var. Hann taldi að ársfundurinn hefði tekist vel. Jóhannes R. Sveinsson, formaður r&t, óskaði eftir að bókuð yrðu mótmæli skorar hans vegna þess að á fundinum hefði verið dreift gögnum um öll rannsóknasvið verkfræðistofnunar nema rafmagns- og tölvuverkfræðisvið.
Jónas Elíasson, stjórnarformaður verkfræðistofnunar, svaraði því til að á fundinum hefðu verið fluttar lýsingar á öllum verkefnum á rafmagns- og tölvuverkfræðisviði en hins vegar hefðu engin smáplaköt borist frá því sviði til að hafa uppi á fundinum.
Formaður r&t mótmælti því og deildarforseti kvað gögn hafa borist frá þessu sviði.

3. Fjárhagsáætlun og skipting fjárveitinga

Lögð var fram fjárhagsáætlun og kennsluáætlun 2005 með nokkrum áorðnum breytingum. Deildarforseti dreifði blaði sem sýndi hvað deililíkan háskólans myndi skammta skorum en gerði tillögu um frávik á þá leið að 9 milj. yrðu færðar af v&i skor og þeim skipt jafnt á milli hinna skoranna þriggja.
Um fjármálin og skiptingu fjárveitinga urðu miklar umræður. Að þeim umræðum loknum bar deildarforseti upp tillögu sína þannig breytta að tölvunarfræðiskor fengi 5 miljónir af hlut v&i skv. deililíkaninu, hinar skorirnar 2 milj. hvor. Skiptingin yrði því sú að skrifstofa fengi 47 milj., u&b 71, v&i 85, r&t 66,5 og tölvunarfræðiskor 74,4.
Jónas Elíasson lagði til að fjárveitingunni yrði skipt þannig að skrifstofa fengi 42 milj., u&b 77, v&i 84, r&t 65 og tölvunarfræði 77.
Formaður v&i lýsti yfir megnri óánægju með þennan niðurskurð á aflafé v&i og kvaðst myndu sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Tillaga deildarforseta hlaut tvö atkvæði, tveir greiddu atkvæði gegn henni en atkvæði deildarforseta réð úrslitum um að tillaga hans telst samþykkt.

Fleira gerðist ekki.
Fundi slitið kl. 14:05