241. deildarráðsfundur

Dagskrá

Föstudaginn 24. september 2004 kl. 12.30 var haldinn fundur í deildarráði verkfræðideildar í fundarherberginu í VR-II. Mætt voru Sigurður Brynjólfsson, Sigurður Erlingsson, Jónas Elíasson (kom 13.25), Ólafur Pétur Pálsson, Jóhannes R. Sveinsson, Helgi Þorbergsson, Kenneth Breiðfjörð, Andri H. Kristinsson og Hulda Hallgrímsdóttir. Fundarritari var Pálmi Jóhannesson.

Þetta gerðist:

1. Fundargerð síðasta fundar

Samþykkt með leiðréttingu á nafni stúdents og vikudegi.

2. Til kynningar

2.1 Fulbright kennarar 2006-2007

Deildarforseti benti skorarformönnum á að þeir gætu sótt um Fulbright-kennara fyrir skólaárið 2006-2007

2.2 Ráðstefna um verkfræði- og tæknifræðinám

Deildarforseti sagði frá umræðum á ráðstefnunni sem haldin var í gær.

2.3 Rannís

Deildarforseti benti á að umsóknum í Rannsóknasjóð Rannís þarf að skila fyrir 1. október nk. og hvatti menn til að ganga frá umsóknum sínum í tæka tíð.

2.4 Valdastefna verkfræðideildar

Valdimar K. Jónsson, prófssor, varð sjötugur í ágúst sl. Verkfræðideild gengst fyrir ráðstefnu í Hátíðasal háskólans í heiðursskyni við Valdimar og er yfirskrift ráðstefnunnar Valdastefna verkfræðideildar.

2.5 Breytingar á reglum

Tillögur að breytingum á reglum fyrir Háskóla Íslands verða að berast stjórnsýslusviði fyrir miðja næstu viku. Rætt var um hvað þyrfti að lagfæra í reglum verkfræðideildar og verður hugað að því á næsta ári.

3. Umsókn um doktorsnám

Vísindanefnd mælir með að umsókn Elenu Lossievskaju um doktorsnám í tölvunarfræði verði samþykkt samkvæmt námsáætlun sem hún hefur lagt fram. Í doktorsnámsnefnd sitji þeir Magnús Már Halldórsson, Sven Þ. Sigurðsson, Jón Jóhannes Jónsson og Esko Ukkonen. Deildarráð samþykkti samhljóða að heimila Elenu inngöngu í námið, námsáætlun hennar og skipun umsjónarnefndar. Breytingar frá námsáætlun verður að bera undir vísindanefnd.

4. Inntaka nýnema um áramót

Deildarforseti lagði fram tillögu um að deildin óskaði eftir heimild til að taka við nýnemum á vormisseri 2005. Tillagan var samþykkt samhljóða.

5 Auglýsing um starf í tölvunarfræðiskor

Lagður var fram texti að auglýsingu sem tölvunarfræðiskor hafði samþykkt á fundi sínum. Eftir nokkrar umræður var deildarforseta og formanni tölvunarfræðiskorar falið að breyta textanum í samræmi við athugasemdir sem fram komu á fundinum.

6. Tímaritakaup deildar

Unnið er að því að opna deildinni rafrænan aðgang að ýmsum tímaritum en áskrift að tímaritunum í pappírsformi er sagt upp.

Ebba Þóra Hvannberg óskar eftir því að keyptar verði "institutional online" áskriftir að Behaviour and Information Technology (779 USD á ári) og International Journal of Human-Computer Interaction (350 USD á ári). Erindið hefur verið kynnt í tölvunarfræðiskor. Það var borið upp og samþykkt samhljóða. Formaður tölvunarfræðiskorar sat hjá við þessa afgreiðslu.

7. Rannsóknamisseri

Oddur Benediktsson hefur sótt um rannsóknamisseri vorið 2005. Deildarráð samþykkti umsóknina samhljóða.

8. Húsnæðismál deildarinnar

Jónas Elíasson lagði á síðasta fundi fram tillögu að flutningu á verklegri kennslu á 1. hæð VR-II út í VR-I til að rýma fyrir kennslustofum. Jónas gerði grein fyrir stöðunni. Miklar umræður urðu um þessi mál og skoðanir ólíkar. Umræðum var að lokum frestað en stungið var upp á að deildarráðsmenn færu í skoðunarferð um húsnæði deildarinnar.

9. Meistaranámsnefndir

Lagt var til að skipaðir yrðu fulltrúar deildar í meistaraprófi eftirfarandi nemenda:

Þráinn Guðbjörnsson, r&t
Jóhannes R. Sveinsson. Leiðbeinendur eru Jón Atli Benediktsson og Helgi Tómasson
Sigurjón Örn Sigurjónsson, r&t
Jóhannes R. Sveinsson. Leiðbeinendur eru Jón Atli Benediktsson og Jocelyn Chanussot, dósent í Háskólanum í Grenoble.

Þessar tillögur voru samþykktar samhljóða.

Fleira gerðist ekki.
Fundi slitið kl. 14.00.