Hörður Filippusson deildarforseti:
Málaferli vegna kennsluskyldu og verkaskiptingar við kennsluÞess hefur verið óskað að ég gerði grein fyrir þessum tveim málum hér á fundinum.
Fyrra málið snýst um þá breytingu á tilfærslu vinnuskyldu milli kennslu og rannsókna við 55 og 60 ára aldur sem var regla fram að síðustu kjarasamningum en var breytt í tengslum við samningana með sérstakri samþykkt háskólaráðs. Frá og með síðustu áramótum er slík tilfærsla að fullu tengd rannsóknaafköstum og gildir fyrir alla kennara.
Einn kennari deildar sem hafði fengið aldurstengda tilfærslu fyrir síðustu kjarasamninga véfengdi rétt háskólaráðs til að breyta kennsluskyldunni og höfðaði mál gegn Háskóla Íslands til að fá viðurkennda fyrri kennsluskyldu. Málið fór fyrir héraðsdóm og síðan til hæstaréttar og var Háskólinn sýknaður af kröfum kennarans.
Síðara málið snýst um verkaskiptingu við kennslu.
Fyrst vildi ég segja þetta.
Ég hef ávallt litið á það sem meginatriði í starfi háskóla að kennarar leggi sig alla fram um að starf deilda og skora geti gengið fyrir sig með eðlilegum hætti. Kennarar leggja oft mikið á sig til að hægt sé að halda úti kennslu í öllum námskeiðum, kenna námskeið þó að þau séu þeim ekki sérlega kær, hlaupa í skarðið þegar veikindi valda forföllum - og margir sinna eða hafa sinnt kennslu langt umfram kennsluskyldu og umfram greiðsluþak. Oft veldur þetta miklu álagi og sjálfsagt og eðlilegt að allir kennarar leggi sitt af mörkum.
Samkvæmt reglum deildar um verkaskiptingu og framsal valds er það alfarið á valdi skorarfundar að skipta verkum við kennslu milli kennara. Einn kennari hefur gert ágreining um þetta atriði og gengið svo langt að höfða mál gegn Háskóla Íslands fyrir héraðsdómi til ógildingar tilteknum skráningum í kennsluskrá og til staðfestingar á rétti sínum til að kenna það námskeið sem hann kýs. Málflutningur mun væntanlega hefjast í næstu viku. Aðalkrafa Háskólans í málinu er að því verði vísað frá dómi.
Til þess að freista þess að afstýra vandræðum átti ég fund með kennaranum rétt fyrir jól til að leggja áherslu á þá afstöðu deildar að kennaranum bæri að fara að ákvörðun skorar um verkaskiptingu og kenna þau námskeið sem honum væru ætluð með samþykkt skorarfundar. Málshöfðun breytti engu þar um og lögmæt ákvörðun skorar stæði óhögguð meðan annað væri ekki ákveðið.
Viðkomandi kennari mætti hins vegar ekki til kennslu í þeim námskeiðum sem hann átti að kenna en boðaði forföll við upphaf þess námskeiðs sem hann átti ekki að kenna. Skorarformaður brást skjótt við og fékk til að hlaupa í skarðið aðra kennara sem rann blóðið til skyldunnar þó að þeir væru störfum hlaðnir við aðra kennslu.
Það er ljóst að við þessu verður að bregðast. Það er óþolandi að kennari hegði sér með þessum hætti. En þó að reglur deildar séu skýrar eru engin úrræði, hvorki hjá skorarformanni né deildarforseta, tiltæk í svona máli. Húsbóndavald yfir starfsmönnum liggur hjá rektor. Þess vegna var rektor þegar í stað gerð grein fyrir stöðu málsins og honum falið það til úrlausnar. Hvað hann tekur til bragðs er ekki ljóst á þessari stundu en mér er kunnugt um að kennarinn og lögmaður hans hafa rætt við rektor og lögmenn Háskólans en engin niðurstaða liggur enn fyrir.
Stærðfræðiskor mun hafa gert sérstaka samþykkt af þessu tilefni og krafist þess af rektor að viðkomandi kennari sæti áminningar fyrir að vanrækja kennslu. Þessa samþykkt skorar hef ég ekki undir höndum.
Augljóst er að fjárhagur skora er ekki með þeim hætti að þær geti unað því að kennsluskylda kennara nýtist ekki að fullu. Launakostnaður vegna eins kennara er 4-6 MKr á ári eða þar um bil.
Ég mun fylgjast með því hvernig málinu reiðir af í höndum rektors.