Miðvikudaginn 22. desember 1999 kl. 12:05 var haldinn fundur í verkfræðideild í fundarherberginu í VR-II.
Mætt voru: Valdimar K. Jónsson, Jónas Elíasson, Sigurður Brynjólfsson, Ragnar Sigbjörnsson, Jón Atli Benediktsson og Ólafur Pétur Pálsson. Þá sátu fundinn einnig þeir Bjarni Bessason, formaður tölvunefndar deildarinnar, og Guðmundur G. Haraldsson, fulltrúi verkfræði- og raunvísindadeilda í háskólaráði.
Fundarritari var Pálmi Jóhannesson.
Þetta gerðist:
Deildarforseti lagði fram tillögu nefndar deildarinnar og tölvunarfræðiskorar um málið. Nefndin var skipuð þeim Halldóri Guðjónssyni, Jóhanni P. Malmquist og Oddi Benediktssyni af hálfu tölvunarfræðiskorar, Önnu Soffíu Hauksdóttur og Páli Jenssyni af hálfu verkfræðideildar. Nefndin leggur til að tölvunarfræðiskor flytjist til verkfræðideildar frá og með haustmisseri 2000.
Talsverðar umræður urðu um málið og voru flestir sammála að vinna áfram að því. Samþykkt var að leggja málið fyrir deildarfund sem haldinn verði innan hálfs mánaðar og taka þar endanlega ákvörðun. Skorarformenn og deildarforseti munu hittast á fundi 28. desember nk. og undirbúa málið fyrir deildarfundinn.
Dreift var yfirliti yfir símanotkun kennara og annarra starfsmanna deildarinnar.
Guðmundur G. Haraldsson sagði frá störfum háskólaráðs á þessu misseri.
Dreift var yfirliti yfir stöðu deildar. Nú hefur komið leiðrétting á móti launakostnaði prófessora en enn er deildin með talsverðan hala. Því var beint til Guðmundar G. Haraldssonar að háskólaráð sléttaði hallann.
Farið var yfir þreyttar einingar og bent á hagkvæmni þess að sameina skyld námskeið sem nú eru kennd sérstaklega í hverri skor, t.d. burðarþolsfræði og stýrikerfi. Deildarforseti beindi því til formanna skora að þeir beittu sér fyrir því að þessi námskeið yrðu sameinuð.
Deildarforseti hefur rætt við rektor og forstöðumann reiknistofnunar um bætur á netkerfinu í VR-II og VR-III en þær munu kosta um 5 miljónir kr. Vonir eru bundnar við að einhverjar úrbætur verði gerðar á næsta ári. Bjarni Bessason, formaður tölvunefndar, dreifði eftirfarandi ályktun sem var samþykkt einróma:
Ástand netmála í VR-II og VR-III er algjörlega óviðunandi. Búnaðurinn er orðinn gamall og úreltur og annar ekki því álagi sem honum er ætlað að bera. Nauðsynlegt er að endurnýja netlagnir og allan netbúnað. Líta verður á endurnýjunina sem eðlilegt viðhald á húsunum sem ekki getur beðið. Áætlaður kostnaður fyrir bæði VR-II og VR-III er í kringum 5 milljónir kr. fyrir netlagnirnar og tilheyrandi búnað.
Deildarráð verkfræðideildar óskar eindregið eftir því að háskólayfirvöld útvegi fé til framkvæmdanna og að ráðist verði í endurbæturnar strax á nýju ári. Verkið verði unnið undir umsjón Reiknistofnunar HÍ.
Deildarráð bendir á að endurnýjun netlagna í VR-II og VR-III hefur verið á framkvæmdaáætlun Reiknistofnunar HÍ undanfarin þrjú ár en alltaf lent í niðurskurði. Einnig var erindi varðandi endurnýjun netlagnanna sent til Byggingarnefndar HÍ, undirritað af forsetum verkfræðideildar og raunvísindadeildar, dagsett 22. desember 1998 án þess að bera árangur. Loks skal þess getið að Tölvunefnd verkfræðideildar sendi bréf til deildarráðs verkfræðideildar, dagsett 19. október 1999, þar sem farið var fram á að deildarráð beitti sér í málinu. Af þessu er ljóst að málið á sér langan aðdraganda og óviðunandi að ekki sé brugðist við því.
Að lokum vill deildarráð nefna að verkfræðideild HÍ hefur byggt upp eigin tölvuver fyrir nemendur á efri árum og lagt sérstaklega í það fé þrátt fyrir að þessir nemendur borgi til Reiknistofnunar sömu upphæð og aðrir stúdentar við HÍ.
Ólafi Pétri Pálssyni hefur verið boðið starf "forskningschefs" á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Ólafur sækir um lausn frá þriðjungi starfsskyldunnar næsta ár. Málið var rætt og samþykkt að fela v&i að afgreiða það.
Guðmundi Björnssyni, stúdenti í r&t, var heimilað að fara í þriðja sinn í próf í Stærðfræðigreiningu IIB, Merki og kerfi og Líkindaaðferðir.